Lady Gaga vill læra hattagerðaiðn. Það finnst mér flott en undirrituð var eitt sinn lærlingur hjá hattagerðameistaranum Marie Mercié í París.
Marie er fræg hattagerðarkona sem opnaði fyrstu verlunina í París árið 1987. Síðan hefur henni vaxið ásmeginn og glæsifólk borgarinnar skartar höttum hennar við hvert tækifæri. Meðal þeirra eru fyrirsætan Milla Jovovich og leikkonan Kristin Scott Thomas.
Þegar ég var lærlingur hennar hafði ég nýlokið viðskiptafræðinámi á Íslandi og vildi freista gæfunnar í tískuborginni. Markmiðið var stórt; að fá vinnu í sölu- og markaðsdeild tískufyrirtækis en ágætt að hafa líka reynslu af handverkinu. Vinnustofur Marie Mercié voru í 11. hverfi borgarinnar en í þeim hluta eru mörg verkstæði tískuhúsa, blómlegt handverk, heildsölur með fatnað og fylgihluti.
Þetta var um vetur, úti var kalt og vinnustofan var illa kynt og nöturleg. Þetta var hin hliðin á flottu ímyndinni – sú sem viðskiptavinurinn sér aldrei en er vissulega til staðar. Þarna vann einn maður af arabískum uppruna og asísk kona, bæði fjöldaframleiddu þau hatta í þesasri köldu vinnustofu frá morgni til kvöld.
Ég átti svo að festa slaufur með einföldu spori í hvern einasta hatt! Hvorugt hjúanna talaði sérstaklega góða frönsku, raunar ekki lærlingurinn heldur á þessum tímapunkti svo það var fátt skrafað og saumaskapurinn eina leiðin til að stytta stundirnar.
Í hádeginu settist ég alltaf inn á kaffihús og pantaði samloku og heitt kakó. Mikið var þetta frábrugðið þeim glæsileika sem ég hafði í barnaskap mínum séð fyrir. Vinnufélagarnir kvörtuðu þó aldrei, þau eru vafalaust ennþá að sauma hattana í litlu kytrunni.
Pjattrófan ég entist hins vegar aðeins vikuna á enda en lærði samt lífstíðarlexíu:
Lítillæti.
Enginn flýgur inn í draumastarfið strax, það þarf að byrja einhvers staðar og vinna sig upp. Í dag finnst mér ég vera heppin að hafa fengið að sauma slaufur á hatta.
Áform Lady Gaga um hattagerðanám hljóma líka mjög vel. Ef til vill ætlar hún að framleiða hattalínu í Gaga anda, slíkt væri bara sniðugt og hver veit nema ég api það eftir líka!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.