Skótískan í París er flott um þessar mundir. Af nógu er að taka en þó þykir mér mest áberandi reimaðir ökklaskór, dálítið í stíl við gönguskó bara með hæl; fíngerðum eða grófum, í leðri og rússkinni.
Hælarnir eru annað hvort ca 7 cm og þá mjög grófir, eða 12 cm og grannir. Það er ekkert þar á milli. Stundum eru skórnir líka með grófri sylgju og þeir eru merkilega víðir yfir ristina…eiginlega dálítið skrítið.
Tískan snýst mikið um reimar núna, hún er áberandi í stígvélatískunni líka. Stígvélin eru áberandi, ná langt upp, jafnvel upp fyrir hné og reimuð alla leið! Það er sérstaklega gaman að þessari flottu skótísku og það má vel sjá fyrir sér stílhreinan fatnað með svona áberandi skóm, enda verður þá skótauið meira eins og fylgihlutur.
Sjálf er ég kolfallin fyrir þessu grófa lúkki – og veldi mér nú frekar 7 cm háu hælana með grófa hælnum. Ef þú værir í vafa hvort hentaði betur, grófir hælar eða fíngerðir er þumalfingursreglan sú að nettar konur velji fíngerða hæla en þær sem eru stærri velji grófa og breiðari hæla.
Ég kíkti í Diorbúðina í París til að skoða og hér eru nokkar myndir.
Fyrir þær sem vilja skoða önnur og þægilegri verð mæli ég með skóbúðinni Minelli, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, einfaldlega vegna þess að hún býður upp á það nýjasta nýja á flottum díl!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.