Já maður spyr sig hreinlega er veðrið fitandi? Ég hef nú aldrei verið eitthvað mikið að pæla i veðrinu fyrr en núna síðustu mánuði…
…enda forvitnilegt að sjá munstrið sem skapast hjá manni þegar úti er beljandi hríð og varla stætt, maður þarf að draga hundana móða og másandi hringinn.
Það er nú líka þannig hjá manni þegar maður vaknar glorsoltinn, hífandi rok úti, snjóflyksur og rigning til skiptist þá öskrar kroppurinn á fitu!
Hvern langar í ískaldan spínatdrykk og sjö vatnsglös í þessari köldu veðráttu? Manni langar miklu frekar i ristaða flatköku með miklu íslensku smjöri sem lekur um allar trissur, kjúklingaskinku, feitan ost og mikið af sultu, herlegheitunum svo skolað niður með fullum fanti af kaffi, þetta segir sig sjálft.
Vissulega getur þetta ekki gengið svona í marga mánuði í viðbót. Svona morgunmatur krefst mikillar hreyfingar yfir daginn, sem er kannski eini gallinn, miðað við veðurfarið en maðurinn er gæddur þeim eiginleika að vera yfirmáta bjartsýnn og frekar léttur á lund svo ég tali nú ekki um jákvæðnina sem við vissulega verðum að hafa og gera það besta úr þessu.
Fyrr en varir kemur dansandi sumarið, hitastigið skýst upp um sjö gráður og þá passar mátulega að stíga mixerinn í botn á hverjum morgni.
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.