Þá er það annar þáttur af sex þátta seríunni Pabbahelgum sem sýndir eru á RÚV á sunnudagskvöldum. Hér má lesa yfirferð af fyrsta þætti en rétt er að fara þau við sem ekki hafa séð þættina að sleppa því að lesa ef þú vilt ekki láta skemma allt fyrir þér. VIndum okkur hér í yfirferð annars þáttar:
Karen er komin með feiknastóra frunsu af álagi (ekki nema að þetta sé krossmenguð frunsa frá Önnu Júlíu). Hjónin eru komin til hjónabandsráðgjafa til að ræða framhjáhaldið (ekki “slysið” eins og sumir vilja kalla þetta) og Karen spyr Matta spjörunum úr en fátt er um svör. Hjá ráðgjafanum læra þau líka að fullorðið fólk grenjar ekki heldur grætur.
Karen trúir pabba sínum fyrir því að Matti hafi haldið framhjá henni, en pabbinn má ekki segja mömmu Karenar frá því, sem er spes því af hverju má mamma hennar ekki frétta þetta?? Karen segir pabba sínum að hún vilji alls ekki vera ein. Te er ekki nógu kröftugt fyrir Kareni þannig að hún þambar kók úr 2L flösku.
Hún getur ekki verið með alveg „hreina hreinskilni” við samstarfskonu sína, sem er algjör þversögn við það sem hún var að ráðleggja skjólstæðingum sínum fjórum mínútum fyrr: … „ræðið saman, það er svo gott fyrir hjartað.”
Lítið um Iittala hjá Matta
Epal heimilið er í upplausn, allt í drasli, ekkert seríjos til og miðjubarnið þróar með sér skjáfíkn.
Hjónin mæta aftur til hjónabandsráðgjafa. Karen er búin að fara í gegnum símann hans Matta og skoða öll gögn um framhjáhaldið en þrátt fyrir allt vill Karen samt ekki að börnin sín þurfi að upplifa einhverjar hallærislegar pabbahelgar, þannig að hún ætlar að vera stærri manneskja og fyrirgefa Matta, en viti menn…hann vill vera einn! hann vill skilnað!
Pabbahelgi nr. 1
Mágkona Karenar ætlar að draga hana út á lífið um pabbahelgina og koma henni í samband við einhvern fráskilin lækni en hún segir mikla skilnaðarhrinu ganga yfir í þeim bransa.
Karen er lang seinust að sækja litla-kút á leikskólann og fær langa ræðu um sokka barnsins.
Matti er búinn að skrá sig „single” á facebook (Karen er sjálf ekki á Facebook og kann ekkert á þetta) og fluttur í kjallaraíbúð einhversstaðar lengst í burtu frá 107, það er ekkert sérlega smekklega innréttað hjá honum, lítið um Iittala eða aðrar Epal mublur.
Kæfir sorgina með kolvetnum, kafnar á kókópöffsi
Karen fer svo á trúnó með tvíburavinkonu sinni Pálu og spæjar um Matta í gegnum Facebookið hennar, og af því að Karen er algjör amatör í Facebook þá setur hún óvart grófan skilnaðarbrandara eftir Hugleik Dagson á vegginn hans í nafni Pálu.
Karen hittir Matta og strákana í Smáralind og þar er fast skotið á báða bóga, dásamlega vandræðarlegt. “pabbi eldar svo gott lasagna… og er rosa duglegur að auglýsa það á Facebook.”
Okkar kona sér fram á að það sé vonlaust að vera ekki á samfélagsmiðlum svo hún arkar eftir snjallsíma hjá Vodafone. Vodafone reynist með afbragðs þjónustufulltrúa sem skellir Karen á Tinder, Instagram, Facebook og hvað þetta nú heitir allt saman. Karen fer síðan á blint tvöfalt stefnumót með mágkonunni fyrrverandi og þar hittir hún doktor Tuma en allur fókusinn hennar er á símanum… hún var sko að byrja á Facebook. Karen flörtar við silfurref á barnum, en fer svo heim í klaufalegt kynlíf með doktor Tuma… sem reynist svo ekki doktor heldur bara lítill stákur…meindýraeiðir, og okkar kona er fljót að koma sér út.
Hún rífur upp símann og sér að Matti er duglegur að pósta #ofurpabba #glansmyndum á instagram en Karen þarf nú bara að muna að instagram er bara glansmynd.
Þá eru það stóru spurningarnar:
Sjáum við ekkert meira af Séra Sæta? Hann og Karen yrðu nú sæt saman.
Hvar er Anna Júlía?
Fáum við ekkert að kynnast henni?
Þetta verður nú eitthvað! Ekki gleyma að ræða þættina í smáatriðum í grúbbunni okkar á FB!
Ingibjörg hefur getið sér gott orð sem einn æstasti aðdáandi Norrænna sjónvarpsþátta á Íslandi. Hún sérhæfir sig í svokölluðum ríköppum og er, að margra mati, ókrýndur Íslandsmeistari í faginu.