Það er víst svo að allt í þessum heimi hefur sinn tíma og það á líka við um Pabbahelgar en síðasti þáttur í var á dagskrá síðasta sunnudag. Þann 10. nóvember.
Ég beið aðeins með að ríkappa hann, svona til að vera viss um að þið væruð öll búin/n að horfa en hér kemur samantektin:
Karen spjallar við séra Sæta, hann segir hann að stundum verði maður að gera límonaði úr límónum.
Það fær hana til að fallast á bón Matta um að gefa þessu hjónabandi séns Karen og Matti eiga gott koddahjal, hún segist hafa saknað hans og spyr hann hvort að hann hafi hafi saknað hennar… hann svarar því ekki snýr bara út úr og fer að fikta við hana. Ég held samt að hann hafi ekki saknað hennar jafn mikið og hún hans. Hann var náttúrulega upptekinn með Önnu Júlíu. Mikið að gera.
Á meðan að Matti er að fikta við Kareni þá dúkkar hjónabandsráðgjafinn upp í okkar konu og hún vill ræða um úrvinnslu og aðdraganda.
Börnin mega ekki vita að þau séu að gefa hjónabandinu annan séns.
Börnin eru greinilega ekki þau einu sem vita ekki af þessu þar sem „stelpuskjátan” hún Anna Júlía lætur Matta ekki í friði.
Hvað er eiginlega að Matta?
Karen skellir allri skuldinni á viðhaldið… en Matti „mun taka ábyrgð”.
Anna Júlía er bara stórskrítin í augum Karenar að vera ekki búin að eignast börn 36 ára… Kannski var hún bara ekki búin að finna þann eina rétta til að eignast börn með?… segi bara svona.
Sigurrós samstarfskona Karenar er ekki alveg kaupa þetta.
Matti lækar allar instagram myndirnar hjá @sexyAnnaJul, hann er greinilega ekki hættur að vera skotin í henni, hvað heldur hann eiginlega að hann sé?!
Góðar stelpur ræna ekki eiginmönnum
Karen mætir „fyrir tilviljun” í sexý sundbolnum bleika í sundlaugina og hittir þar Matta og börnin. Hipstera ljóðskáldið Nathaniel er líka í lauginni og á gott spjall við Kareni um Önnu Júlíu, hvað hún sé góð stelpa. Karen bendir á að góðar stelpur ræna ekki eiginmönnum annara kvenna.
Í búningsklefanum fær Karen mynd af fermingarbróður Matta… “„sakna þín sæta”.
Þar sem að það eru aðeins örfáar mínútur síðan þau hittust, og varla er hann farin að sakna hennar strax, leggur Karen saman tvo og tvo og fær það út að þessi fermingar-bróðurs-mynd var ekki ætluð henni. Sundraða fjölskyldan (að undanskildum litla kút) fer út að borða og Matti pantar kakó handa Karen sem bendir honum pent á að það sé líklega einhver önnur sem drekki kakó. Karen áttar sig á því að hana langar ekki meira að það sé neitt „við” BÚMM – tekur svo stíðsdansinn á Ægissíðunni.
„Hún sjálf” ekki „við”
Við hittum aftur fyrir Blæ og Sunnevu, hann er aðeins búin að minka áhorfið á fótbolta, horfir bara á enska núna. Karen ráðleggur þeim að skella sér til Manchester í dörtí weekend. Blær og Sunneva eiga skilið sinn eigin „spinoff” þátt.
Okkar kona fílar sig í tætlur sem „hún sjálf” ekki „við” fer meira að segja ein í bíó… á barnamynd.
Matti er voðalega trist, borðar örbó-mat og reynir að hafa samband við Önnu Júlíu sem er líklegast að “drauga” hann.
Fastur við oblátu
Karen tjékkar á séra Sæta á facebook eftir að hafa dreymt um hann svo fer hún að skoða kjallaraholu í Víðimel, þar sem lofhæðin er vel undir tveimur metrum en fasteignasalinn er rosalega duglegur, myndi örugglega láta ömmu sína fylgja í kaupbæti ef það hjálpaði við söluna.
Mæðgurnar fara í prufugreiðslu fyrir ferminguna, hárgreiðsludaman er einhversskonar Anna Júlía, hún á í sambandi við giftan mann.
Þórkatla segir að þau, foreldrarnir, séu mun betri í sitthvoru lagi, stelpan er óvitlaus.
Loksins fermist Þórkatla, svo fín með slegið hár.
Ég fékk dásamlegan kjánhroll þegar Karen var í altarisgöngunni, af hverju ríghélt Séra Sæti í oblátuna? Hann gerði það ekki hjá Matta… hmm var hann óbeint að flörta við Kareni?
Veruleiki Matta
Þórkatla eldri tekur tengdadótturina fyrrverandi á beinið… hún er bara búin að heyra um „veruleikann” hans Matta síns.
Er Matti virkilega búin að læra af mistökunum þegar hann er ennþá að reyna að hafa samband við Önnu Júlíu? Ég held ekki og mér sýnist Karen ekki vera að kaupa þetta. Hún er algjörlega komin yfir hann! Hann getur bara átt sig og búið í sínum eigin veruleika.
Mikið var ég glöð að sjá að tvíburavinkonurnar eru í svipuðum dressum.
Pála tvíbbi setti upp „FLAMER” reikning fyrir okkar konu og viti menn… Séra Sæti er líka á FLAMER og að sjálfsögðu svæpar maður til hægri á Séra Sæta!
Mér sýnist Karen reyndar svæpa öllum til hægri, spékoppa helgarpabbanum, Dóra DNA og fleiri gæðaköllum. Ég vona samt bara mest að hún “matchi” við Séra Sæta.
Stóru spurningarnar:
Munum við fá aðra seríu um Karen okkar? Ég vona það allavega!
Mun Séra Sæti svæpa Kareni til hægri?
Er Nathaníel kannski sá eini rétti fyrir Önnu Júlíu?
Hvað verður svo um Matta og hans veruleika?
Mun hann hætta að vera sorgmæddur fáviti?
Hvað verður um Blæ og Sunnevu, mun hann hætta að taka einhvern fótbolta framyfir hana?
Ég var ánægð með þessa þætti! Góð saga og rosalega vel leikið af öllum leikurunum. Takk fyrir mig og takk þið öll sem að þessu stóðuð fyrir frábæra skemmtun 🙂
Ingibjörg hefur getið sér gott orð sem einn æstasti aðdáandi Norrænna sjónvarpsþátta á Íslandi. Hún sérhæfir sig í svokölluðum ríköppum og er, að margra mati, ókrýndur Íslandsmeistari í faginu.