Þá erum við flest búin að horfa á fimmta (og næstsíðasta) þáttinn af Pabbahelgum en ég ákvað að þessu sinni að bíða örlítið með ríkappið svo að þið sem tókuð þetta á sarpinum (tímaflakki) gætuð lesið líka. Bannað að spoila. Kannski, en varla, er nauðsynlegt að taka það fram að þessi þáttur snerist soooldið mikið um kynlíf svo þið sem eruð viðkvæm fyrir því ættuð eflaust að hætta að lesa og loka glugganum. Hefst þá ríkappið:
Karen og Séra Sæti spjalla yfir kaffibolla (það hlaut að koma að því), Karen játar það fyrir séranum að hún viti ekki neitt í sinn haus. Rosalega er blái liturinn í kirkjunni fallegur! Karen og Matti ákveðja hjá sýsla að skipta búinu, Matti vill ekki láta dauða hluti skipta of miklu máli.
Karen okkar sefur og sefur og hefur enga orku til að sinna heimilinu, kókópöffs og kanilsnúðar út um allt. Birkir er algjör ljúflingur og huggar mömmu sína sem er á barmi taugaáfalls, Hann hringir svo í ömmu og afa sem koma til bjargar. Karen er enn eina ferðina í Bónus, núna eru það ekki kanilsnúðar heldur alls konar vítamín og bætiefni sem rata í körfuna og svo skellir hún sér í enn einn jógatímann.
Streitulosun með víbrador
Anna Júlía er ennþá með Matta, hún og Birkir spjalla yfir morgunmatnum, hann lekur því í hana að Karen segi að hún sé “kúkabrún og deyi örugglega úr húðkrabbameini” – smekklegt að láta barnið heyra þetta. Matti er lækkaður í tign í símaskrá Karenar, ekki lengur “Matti minn”
Karen fer í bíó, á “Kamer vs. Kramer” og hittir þar gamla vinkonu sem skellir framan í hana einhverjum upplyftingar-klisjum… hún reynir að halda andlitinu greyið en hættir við að sjá myndina, þar sem það er, einhverra hluta vegna, skrítið að fara ein í bíó. Karen losar svo um streitu með jóga og víbrador, gott hjá henni. Go girl!
69 í Bónus
Nú er svo komið að skiptingu Epal-búsins, Karen vill halda Vitra snaganum og EPAL fatahenginu og Matti er ekki sáttur við einhverja IKEA snaga, mikið skil ég hann vel!
Glösum má alls ekki skipta upp í oddatölur, svo fer Matti að grenja.. nei gráta yfir glösunum. Fullorðið fólk grenjar ekki muniði.
Dóri DNA flörtar við Kareni í búðinni, einstaklega kjánalegt grín með töluna 69 og að koma á undan. Efni í góðan kjánahroll.
„Það er ekki mér að kenna að þetta sé IKEA“
Karen
Af með giftingarhringinn
Karen tekur heimilið í gegn, ný sængurföt, sápa frá Sóley Organics (eins og allar hinar konunar í þessum þáttum) og sturtuhengi með áprentaðri klisju.
Karen rakar sig undir höndunum (ólíkt Önnu Júlíu), booztar sig í gang og tekur loks af sér giftingarhringinn. Mér sýnist okkar kona vera komin á smá skrið í bataferlinu.
Þórkatla er voðalega dugleg að gista hjá vinkonum sínum þegar það eru pabbahelgar, hún meikar ekki alveg pabba sinn.
Hollráð úr life-hack appi
Karen flörtar við helgarpabba í húsdýragarðinum. Sá er með spékoppa í andlitinu og Karen á bossanum… er það ekki bara ágætis match? Hún og sleikibrjóstsykurinn hennar klúðra flörtinu samt illa… elsku Karen okkar var bara að reyna að draga athyglina að vörunum, hollráð úr life-hack-appi.
Anna Júlía er að „seena” Matta, hann tuðar í henni að hann þoli ekki þegar hún svarar honum ekki á Messenger en hún er ekki sátt við hann.
Anna Júlía vill taka 9. sporið á Kareni og ýjar að því að Matti drekki of mikið og illa (hann vildi jú fá öll áfengisglösin þeirra hjóna).
Svínum finnst gott að ríða
Blessaður Birkir karlinn var svo bara ekkert til í fara í Húsdýragarðinn, hann vildi bara ekki særa pabba sinn… strákgreyið að verða meðvirkur.
Matti býður Kareni í hipstera te úr hipstera bollum sem Anna Júlí gaf honum í afmælisgjöf.
Birkir lærði það í húsdýragarðinum að svínum þætti gott að ríða, og þá er eðlilegast að spyrja foreldra sína hvort að þeim finnist líka gott að ríða… svona eins og svínunum.
Hjónin fyrrverandi drekka sama rauðvín og Matti reynir að kyssa Kareni, án árangurs, gott samt hjá henni að stoppa þetta.
„I just need a fuck!”
Karen fer svo á tjútt með mágkonu sinni fyrrverandi.
Matti sendir Önnu Júlíu mynd af fermingarbróðurnum.
Karen gargar á Ítala á tjúttinu “I just need a fuck” en er svo ekki alveg game í það þegar á hólminn er komið. En svo fer okkar kona ofurölvi heim með manni, silfur-refinum sem við sáum hér um daginn og ÆLIR yfir hann í miðjum klíðum.
Haldiðið ekki að silfur-refurinn sé barasta pabbi „læknanemans“ sem Karen var nærri því búin að sofa hjá. #vandró!!
Matti kíkir á skelþunnu og ælandi Kareni, og viti menn… þeim, líkt og svínunum, finnst gott að ríða… í nokkrar sekúndur.
Þá eru það stóru spurningarnar:
Munu þau hætta við að skilja?
Hvað verður um Önnu Júlíu? Hætta þau Matti saman?
Er hún byrjuð aftur að reykja?
Mun hún taka 9. sporið á Kareni?
Fær Matti glösin öll, ekki bara oddatölu?
Hvort þeirra þarf að bíta í það súra epli að sitja uppi með IKEA snaga?
Þarf Matti að íhuga áfengisneyslu sína?
Af hverju á Karen ekki fleiri vini á Facebook??
Ingibjörg hefur getið sér gott orð sem einn æstasti aðdáandi Norrænna sjónvarpsþátta á Íslandi. Hún sérhæfir sig í svokölluðum ríköppum og er, að margra mati, ókrýndur Íslandsmeistari í faginu.