Þá er það þriðji þátturinn af Pabbahelgum sem hefst á Matta og Önnu Júlíu í ástarleik innan um MALM kommóður og kött og við fáum að kynnast Önnu Júlíu. Hún er auðveld, einföld.. en það er nú kannski ekki að marka, þar sem þau eru ekki að reka heimili og ala upp þrjú börn saman.
Karen fer í tjékk til Arnars Hauks kvensjúkdómalæknis til að athuga hvort að hún sé komin með einhvern kynsjúkdóm. Hún er hálf skömmustuleg fyrir að vera illa snyrt, en Arnar huggar hana með því að segja við hana að hún sé fín eins og hún er, mun betri en að vera eins og bólugrafinn unglingur. Steinliggur.
Matti og Karen fara til sýsla… sýslumanns og þar er „gert ráð fyrir“ að börnin hafi lögheimli hjá móður. Matti vill hafa viku-viku kerfi. Karen fær til sín þau Halldóru og Tómas í ráðgjöf og Halldóra vill skilja við Tómas, hann er svo leiðinlegur, hann hefur ekki skoðanir á neinum, þolir hvorki Gísla Martein né Loga Bergmann og runkar sér yfir gömlum Bond-stúlkum. Tómas hefur lítið um þetta að segja og drekkur bara sitt Pepsí Max.
Barnalegt rifrildi fyrir framan barnið, sérann og Guð
Karen og Matti ræða málin með fermingarbarninu tilvonandi og Séra Sæta, Þórkatla spyr Sérann af hverju Guð lætur börn þurfa að hlusta á foreldra sína rífast allan daginn… þá detta þau í rifrildi… mjög barnalegt rifrildi fyrir framan barnið sitt, sérann og Guð.
„Er nú skítafýlan farin að reka við“ (ég væri samt ennþá til í að sjá eitthvað gerast á milli Karenar og séra sæta).
Kolvetnakóf og peningaþjófnaður
Karen dettur í kolvetnin aftur, núna er það snakkið, kíló af Lakkrís (í boði Önnu Júlíu og kisu-þúsundkallanna) og svo risastór kanilsnúður í endann. Hún fær Önnu Júlíu til að hitta sig á kaffihúsi og ræða málin, og þær verða líka vinkonur á Facebook. Allt mjög eðlilegt. Þegar Anna Júlía bregður sér á salernið, stelur Karen frá henni tveimur þúsundköllum sem Anna Júlía hefur brotið saman eins og ketti, (af hverju er Karen samt að leggjast svo lágt að stela?). Svo þarf varla að nefna að Matti er ekkert voðalega sáttur með það að konurnar í lífinu hans séu að hittast.
Niðurlag: Okkar kona hleypur Ægissíðuna fram og tilbaka, gott fyrir hana að fá útrás þarna, ekki bara í snakkpokana.„Ljónið skeytir lítt um álit sauðsins“ speki úr Game of Thrones í boði fermingarbarnsins.
Karen og tvíburavinkonan hittast í samstæðum gráum bolum og kósýbuxum til að ræða „hóruna hans Matta“.
Samantekt – Hér er það sem við vitum núna um Önnu Júlíu:
- Hún er í 12 spora samtökum, óvirkur alki.
- Hún skiptir ekki oft um klósettbursta.
- Hún er með húðflúr sem hvaða sjóari sem er væri stoltur af.
- Hún eeelskar ketti, þrátt fyrir ofnæmi. Hún er í klettaklifri.
- Hún geymir ótrúlegt magn af hlutum í vösum sínum.
- Hún föndrar kisur úr þúsundköllum.
- Hún er rosalega heppin að eigin sögn.
- Hún verður óðamála þegar hún er stressuð.
- Hún á ekki börn, en umgengst börn Karenar og Matta.
- Hún veipar og tekur í vörina.
- Hún rakar sig ekki undir höndunum.
- Hún var skiptinemi í Nýja Sjálandi fyrir 18 árum… þá reiknast mér að hún sé einhversstaðar á milli 32-36 ára.
- Hún á einhverja svakalegustu prjónapeysu sem sést hefur í sjónvarpi síðan að Bill Cosby var og hét… þetta er eins og tvær peysur í einni með leðurkögri í handarkrikanum… ég get ekki gert upp við mig hvort að þetta sé ljótasta eða flottasta flík sem ég hef á ævi minni séð.
Nokkrar spurningar að lokum
Af hverju er Matti ennþá með mynd af þeim hjónum á skrifborðinu sínu?
Af hverju er hann ennþá með Karen skráða sem „Karen mín“ í símanum sínum?
Munu þau ná að tækla þennan skilnað eins og þroskað fullorðið fólk?
Hvar, ó HVAR! fæst þessi prjónapeysa sem Anna Júlía skartaði í þættinum (spyr fyrir vin)??
Og…hvað er málið með íslenska sjónvarpskarla sem drekka mjólk í lítravís sbr. Matti og Andri í Ófærð?
Ingibjörg hefur getið sér gott orð sem einn æstasti aðdáandi Norrænna sjónvarpsþátta á Íslandi. Hún sérhæfir sig í svokölluðum ríköppum og er, að margra mati, ókrýndur Íslandsmeistari í faginu.