Á föstudagskvöldið síðasta sá ég leikritið Óskasteinar eftir Ragnar Bragason í Borgarleikhúsinu og fannst það algjörlega frábær skemmtun!
Þetta leikrit er fyrir alla sem hafa hlegið að Georg Bjarnfreðarsyni og öðrum úr týpugalleríi ‘vaktaseríanna’ – Það er fyrir alla sem finnst þeir leikhúshamlaðir, líka þá sem fara oft og iðulega í leikhús, líka þá sem vilja fara oftar og eru alltaf á leiðinni.
Og hversvegna er þetta svona skemmtilegt? Jú, það sama er uppi á teningnum með Óskasteina og “vaktirnar”. Karakterarnir eru svo sniðugir og skemmtilegir að maður getur ekki annað en skemmt sér konunglega yfir ruglinu sem veltur upp úr þeim, því sem þau eru gerð úr og hvernig þau bregðast hvort við öðru.
Á margan hátt má líkja Óskasteinum við myndina/leikritið Abigails Party eftir snillinginn Mike Leigh. Þar koma saman nokkrir karakterar sem eru svo púkó og fyndnir að maður fær ljúfsáran imbahroll á fimm sekúndna fresti. Prófaðu t.d að horfa á þetta – og segðu svo “I’ve got very beautiful lips”
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=gc8WVJQdO3A[/youtube]
Leikarar í Óskasteinum eru fimm og þau eru öll á sviðinu nánast allann tímann. Um er að ræða tvö pör sem frömdu bankarán og eina miðaldra konu sem er einhverskonar gísl þeirra en hópurinn stekkur inn á leikskóla til að fela sig eftir ránið.
Þetta er varla í frásögur færandi, og er það ekki, enda ekki áhugaverðara í sjálfu sér en þrír menn sem vinna saman á bensínstöð því eins og áður segir, þetta verk snýst allt um týpurnar sem leikstjórinn, Ragnar Bragason, lagði mikla vinnu í að þróa og skapa áður en verkið sjálft var skrifað. Æfingar fyrir verkið hófust nefninlega hálfu ári áður en verkið var klárt og textinn er í sjálfu sér skrifaður upp úr spuna leikaranna á karakterunum sjálfum.
Best fannst mér Nanna Kristín í hlutverki fitness-skinkunnar Sísí, sem heitir í raun Sigurborg Borg. Nanna hefur greinilega mikinn húmor fyrir þessari týpu og túlkar hana einstaklega vel.
Frasarnir sem velta upp úr henni eru margir alveg frábærir, eins og til dæmis þegar hún galar að hún sé að vinna í sjálfri sér þegar hún er sökuð um að vera atvinnulaus, eða þegar hún talar um fitness-keppnina sem hún fékk bronsið í fyrir fimm árum.
Allir hinir leikararnir voru reyndar frábærir líka. Kristín Þóra Haraldsdóttir leikur kasólétta Rakel sem virðist alin upp á Stuðlum. Hallgrímur Ólafs leikur barnsföður hennar, Steinar, Þröstur Leó Gunnarsson leikur Trausta (pabba Steinars) og Hanna María Karlsdóttir er gíslinn sem þau tóku.
Samspilið á milli þessara einstaklinga er á köflum svo fyndið og skemmtilegt að salurinn vældi af hlátri.
Þetta er með því skemmtilegasta sem ég hef séð í leikhúsunum í vetur, eflaust bara á toppnum ásamt verkinu Sveinsstykki e. Þorvald Þorsteinsson sem Arnar Jónsson túlkaði af mikilli kúnst í Þjóðleikhúsinu.
Nú er bara að drífa sig í Borgarleikhúsið. Verkið ætti að höfða til allra aldurshópa (eldri en 15 ára) og miða má kaupa hér en áhugasamar geta horft á Abigails Party í fullri lengd hér.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.