Óskarinn er í kvöld og ég verð að taka ofan af fyrir RÚV fyrir að gera eitthvað fyrir okkur kvikmyndaunnendur og sýna beint frá hátíðinni, vanalega snúast allar beinar úsendingar á íslenskum stöðvum um íþróttir eða eitthvað sem er þeim tengt.
Í ár er 85 Óskarshátiðin haldin og Seth MacFarlane, maðurinn á bak við Family Guy, verður kynnir:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=PiWkXJ8SWBU[/youtube]Alveg síðan tilnefningar til Óskarsverðlaunanna voru kynntar þann 10. janúar hefur, eins og á hverju ári, mikið verið rætt um það hverjir voru tilnefndir án þess að eiga það skilið, hverjir hefðu átt að fá tilnefningu en fengu hana ekki o.s.frv.
Aðalumræðan um Óskarinn hefur samt snúist um hver eigi svo á enddanum eftir að vinna sjálfann Óskarinn á verðlaunakvöldinu.
Besta myndin:
Flestir spá Argo sigri en margir segja að Lincoln líka líklega til sigurs. Mörgum finnst hins vegar að Zero Dark Thirty ætti að hreppa hnossið fyrir bestu kvikmyndina í fullri lengd en finnst samt ólíklegt að það gerist. Með sigri myndi Argo komast á blöð Óskars-sögunnar sem fjórða kvikmyndin í 85 ára sögu hátíðarinnar sem hefur unnið verðlaun sem besta kvikmyndin en sem vinnur ekki verðlaun fyrir bestu leikstjórnina.
Besti leikstjóri:
Flestir veðja á Steven Spielberg fyrir “Lincoln” en Ang Lee fylgir fast á hæla hans fyrir “Life of Pi”.
Ef Spielberg vinnur verður þetta hans fjórði Óskar. Þetta yrði hins vegar aðeins annar Óskar Ang’s Lee en hann vann áður fyrir leikstjórn “Brokeback Mountain” árið 2006.
Besti leikari í aðalhlutverki:
Allt bendir til þess að Daniel Day-Lewis muni vinna Óskarinn í þessum flokki og flestir ef ekki allir sem spá fyrir um Óskarinn í ár spá honum sigri. Þetta er í fimmta skipti sem Daniel Day-Lewis er tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aðalhlutverki, en hann hefur unnið þann flokk tvisvar. Árið 1989 fyrir “My Left Foot” og árið 2007 fyrir “There Will Be Blood”.
Besta leikkona í aðalhlutverki:
Samkeppnin er harðari í flokknum fyrir bestu leikkonuna í aðalhlutverki. Þar eru þrjár leikkonur og misjafnt er hverri þeirra er spáð sigri. Jennifer Lawrence er þó oftast nefnd fyrir leik sinn í “Silver Linings Playbook” en fast á hæla hennar fylgja Jessica Chastain fyrir leik sinn í “Zero Dark Thirty” og Emmanuelle Riva fyrir “Amour”. Emmanuelle Riva, sem er 85 ára, er elsti einstaklingurinn sem hefur verið tilnefndur í þessum flokki og Quvenzhane Walli, sem er 9 ára,s sem er tilnefnd fyrir frábæra frammistöðu sína í “Beasts of the Southern Wild” þykir ekki líkleg til sigurs en hún er yngsti einstaklingurinn sem hefur nokkru sinni verið tilnefnd í þessum flokki.
Besti leikari í aukahlutverki:
Innan þessa flokks er jafnvel meiri samkeppni en um bestu leikkonu í aðalhlutverki. Flestar spár segja þó að annað hvort Tommy Lee Jones muni hljóta Óskarinn fyrir leik hans í “Lincoln”eða þá að Robert DeNiro muni hljóta hann fyrir leik sinn í “Silver Linings Playbook”. Hinir þrír sem keppa um þessi verðlaun, Philip Seymor Hoffman fyrir “The Master”, Alan Arkin fyrir “Argo” og Cristoph Waltz fyrir “Django Unchained” þykja hins vegar líka allir eiga Óskarinn skilið. Allir hafa þeir hlotið Óskarinn einhvertíma áður.
Besta leikkona í aukahlutverki:
Allar tölur og allir sérfræðingar segja að Anne Hathaway muni rústa þessum flokki fyrir leik sinn í “Les Misérables”, flestir nefna ekki einu sinni keppinauta, en þeir fáu sem gera það nefna Sally Field fyrir leik hennar í “Lincoln”. Anne Hathaway hefur nú þegar unnið til tólf verðlauna fyrir leik sinn í “Les Misérables”.
Svo er bara að sjá hvað verður! Góða skemmtun!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.