Kvöld eitt í janúar 2008 sat ég heima í makindum mínum að háma í mig piparkökur og horfa á Friends. Síminn hringdi og ég var varla að nenna að standa upp en eftir nokkrar hringingar dröslaðist ég upp úr sófanum og náði í hann.
Mamma var á hinni línunni og bað hún mig um að fara strax út í búð, hún var verslunarstjórinn á þeim tíma, því það hafði verið vopnað rán og hún var í allavega 30 mín. fjarlægð.
Ég stökk í útiföt og hljóp út í búð og var komin þangað á undan löggunum. Ég bað starfsmennina að koma niður í kjallara, því í vopnaða ráninu vikur fyrr, já VIKU fyrr, höfðu blaðamenn komið á undan mömmu og náð myndum af
starfsfólkinu í sjokki og birt þær og við vildum komast hjá því núna. Tveir viðskiptavinir fylgdu okkur niður. Ég bað alla um að setjast niður og bauð þeim eitthvað að drekka, spurði þau út í ránið og hljóp síðan upp
og beið þar eftir löggunum. Þegar þær komu sagði ég þeim það sem ég vissi af ráninu og fylgdi þeim svo til starfsmannanna og viðskiptavinanna tveggja. Mamma kom stuttu seinna og ég fór upp á meðan löggurnar tóku
skýrslu af genginu og gekk frá því sem ganga þurfti frá og beið svo eftir öllum.
Fljótlega komu viðskiptavinirnir tveir upp, þetta voru tveir strákar á mínum aldrei sem ég hafði ekki séð áður, mér fannst þeir hræðilega hallærislegir gaurar svo ég eyddi nú ekki miklum tíma í að spjallaði við
þá og varð frekar fegin þegar þeir loks komu sér af stað. Þegar mamma kom svo upp hjálpaði ég henni að loka búðinni og dreif mig svo heim að klára piparkökurnar og Friends þáttinn.
Nokkrum dögum seinna komu strákarnir tveir uppí búð. Ég afgreiddi þá og spjallaði heillengi við þá um allt og ekkert. Næstu vikur hitti ég þá reglulega uppí búð og vorum við farin að þekkjast alveg ágætlega enda héngu þeir oft hjá mér á kvöldin þegar lítið var að gera. Þessir hallærislegu gaurar urðu meira og meira sjarmerandi í hvert skipti sem ég hitti þá og var ég farin að spjalla daglega við þá á msn og myspace.
Í apríl 2008 fór ég svo með þeim á rúntinn, við skutluðum vini þeirra og kærstu hans í partý og fórum svo heim til annars og horfðum á mynd. Annar fékk svo sms frá kærustu sinni og þurfti að rjúka út en ég varð eftir með
hinum. Við kláruðum myndina og spjölluðum svo saman….alla nóttina. Við hittumst svo aftur næsta dag og þarnæsta og vorum byrjuð saman viku seinna.
Núna 5 árum seinna er ég trúlofuð þessum hræðilega hallærislega gaur, búin að kaupa hús með honum og á með honum 2 dásamleg börn.
Hinn hallærislegi gaurinn er einn af mínum bestu vinum svo það borgar sig ekki að dæma allt eftir fyrstu kynnum, ég er allavega fegin að hafa ekki gert það.
Kristjana Kristjánsdóttir
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.