Árið 2005 var ég ungur drengur í Verzlunarskóla Íslands, nýkominn heim úr skiptinámi og hafði gaman af því að vera til. Eina helgina var mér boðið í partý hjá bekkjarsystur minni í Grafarholti og auðvitað lét maður sig ekki vanta þangað. Hverfið var í byggingu og flest húsanna stutt á veg komin.
Húsið sem partýið var í var einmitt ekki að fullu klárað. Þegar aðeins var liðið á kvöldið var ég staddur úti á svölum og þar stóð við hliðina á mér stúlka, hún var ljóshærð, bláeygð og svo hress. Við vorum merkilega sammála um allt og stóðum þarna heillengi og spjölluðum.
Seinna fórum við að rekast æ oftar á hvort annað í skólanum, vinkona hennar var með mér í bekk og einhverra hluta vegna fann hún sig knúna til að heimsækja hana mun oftar en áður. Við töluðum oft saman og hlógum
mikið. En tíminn leið og við vorum bæði frekar feimin held ég með að fara með þetta lengra.
En viti menn, dag einn fékk ég tölvupóst þar sem hún sagði mér frá því að hún væri til í að hitta mig einhverntíma. Og ég hlýt að vera eini maðurinn sem ég þekki sem hef fengið tölvupóst sem greinir manni frá því að kona hafi áhuga á manni.
Það var svo kvöldið 5. mars 2005 sem að ég hringdi í hana og spurði hvort ég ætti ekki að pikka hana upp og taka smá bíltúr. Ég hef líkleg sjaldan eða aldrei verið jafn stressaður og þegar ég heilsaði henni og keyrði af stað. Og málið var að ég bara keyrði og keyrði og vissi ekkert hvert ég var að fara, nema hvað þegar ég rankaði við mér vorum við komin út í Gróttu þar sem ég lagði bílnum og snéri mér að henni.
Hún var ekki lengi að spyrja hvort við ættum ekki að fara út í smá göngutúr bara (löngu seinna sagði hún mér að hún hefði fengið miklar efasemdir um í hvað hún væri búin að koma sér í og hefði jafnvel hugsað með sér að biðja mig um að skutla sér bara aftur heim). En það varð úr og við gengum af stað og gengum alla leið inn að Eiðistorgi og aftur til baka að bílnum, það var hrottalega kalt úti og komið fram yfir miðnætti, en myrkrið og kuldinn höfðu engin áhrif að því er virtist. Okkur tókst á þessum líklega 2 klst göngutúr að ræða allt milli himins og jarðar og þegar í bílinn var komið er ég nokkuð viss um að við höfum vitað nær allt sem hægt var að vita hvort um annað. Ég skutlaði henni svo heim og kvaddi og þakkaði fyrir frábært kvöld.
Eftir þetta kvöld gerðust hlutirnir hratt, við urðum algjörlega óaðskiljanleg. Sex mánuðum síðar var hún flutt inn hjá mér og hún hefur ekki losnað við mig síðan.
Við eigum í dag yndislegan rúmlega 4. ára strák sem heitir Lúkas Myrkvi og erum búin að vera gift frá því í haust og enn virðist lukkan ætla að leika við okkur á þessu ári. Þann 5. mars verða árin orðin 8 frá kvöldinu góða í Gróttu og ástin líklega aldrei verið sterkari milli okkar. Ég er svo heppinn að þetta kvöld, árið 2005 fann ég ástina í lífi mínu, fallegustu og skemmtilegustu stelpu sem hægt er að hugsa sér.
Takk fyrir að vera til Harpa Hrund, takk fyrir að vera þú.
Ástarkveðja,
Gunnar Freyr
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.