Fyrstu kynni mín af ástinni minni voru þegar mér var gefin mynd af ungri stúlku sem stóð í hlöðugati á gömlum sveitabæ. Þetta var árið 1985 og ég bara 12 ára gamall. Þær sem gáfu mér myndina sögðu að þessi ætti að verða kærastan mín.
Mér fannst þetta yndislega falleg stúlka og setti myndina við höfðagaflinn á rúminu mínu og þar hékk myndin í 8 ár. En aldrei á þeim tíma hitti ég stúlkuna né vissi hver hún var.
Svo var það þann 18. desember 1992 að ég þvældist fyrir tilviljun í afmælisveislu með vini mínum og þá komst ég að því að afmælisbarnið var sú sem hafði verið við rúmgaflinn minn öll mín unglingsár.
Ég var strax hugfanginn en þorði nú ekki að láta til skarar skríða að þessu sinni en ákvað þar sem ég stóð inni á skemmtistaðnum Berlín að skrá mig í nám í Fjölbrautaskólann við Ármúla, en þar var hún nemi.
Það fór svo að nám mitt í Ármúla var litað vafasömum tilgangi, þangað fór ég eingöngu til að kynnast henni betur, þeirri sem hafði vakað yfir mér og mínu lífi. Mynd hennar hafði fengið að vera þrátt fyrir að ég hefði átt kærustu í 3 ár…myndin var einskonar „icon“ sem ekki mátti fyrir neina muni taka niður.
Svo dró til tíðinda þann 4. febrúar 1993 að mér tókst á einhvern undarlegan hátt að fá hana með mér á skíði í Skálafelli en skólinn fór þangað í skíðaferðalag. Þar leiddi ég hana upp og niður brekkurnar og fékk frábært tækifæri til að halda utan um hana og vera nærri henni þar sem hún gat akkúrat ekki neitt á skíðum. Um kvöldið tókst mér að bjóða henni með mér á Tvo vini og þar með var málið í höfn. Við áttum saman frábært kvöld með skólafélögunum og daginn eftir hittumst við í tvítugafmælisveislu hjá vonkonu hennar, aftur á skemmtistaðnum Berlín.
Eftir þessa afdrifaríku helgi tók ég rúmið mitt, skellti því á toppinn á horgræna BMW inum mínum og brunaði með það upp í Mosfellsbæ og síðan þá höfum við varla verið í sundur nema einstaka nótt. Við höfum upplifað ýmislegt, góða hluti og erfiða, eigum fjögur fullkomin börn og frábærar fjölskyldur sem hafa stutt okkur með öllu sínu, alla tíð. Í dag, þann 5. febrúar eigum við að baki 20 frábær ár.
Líf mitt er frábært og þegar ég hugsa um hana heyri ég Bubba syngja þetta lag
Sérðu ekki við fæddumst til að standa hlið við hlið
og halda út á veginn saman og líta aldrei við.
Með þér vil ég verða gamall og ganga lífsins veg
með þér er líf mitt ríkara – með þér er ég bara ég.
Kalli Bridde
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.