Mér hafði verið bent á Mr. Big af mörgum vinkonum mínum… “Hvernig litist þér á að fara út með Mr. Big?” og “af hverju reynir þú ekki við Mr. Big?” hafði heyrst úr rykugum skúmaskotum saumaklúbbsins í nokkurn tíma en alltaf sló ég þessar vangaveltur frá mér eins og mýflugu á sólskinsdegi.
Svo kom að því að ég þurfti að flytja. Systir mín, eins slóttug og læðan sú er, mætti á staðinn til að hjálpa mér vopnuð manninum sínum… Ooooog Mr. Big! Ég fylgdist með honum flytja hlutina mína inn og hugsaði nú með mér að það væri nú óþarflega sexý hversu axlabreiður hann væri. Svo tókum við okkur pásu við flutninga og það kom upp úr kafinu að hann var að leita sér að íbúð líka. “Íbúðin hérna á móti er laus” hnaut upp úr mér áður en ég gat hugsað hugsunina til enda…
Jæja, til að gera langa sögu stutta varð það úr að Mr. Big flutti í íbúðina hinum megin við götuna. Ég byrjaði að góma sjálfa mig við að hugsa um hann og ákvað á endanum að senda honum sms, sem ég hafði aldrei gert áður. Ég sat með símann í höndunum, búin að opna skilaboð á hann og var að úthugsa eitthvað alveg hryllilega hnyttið þegar það er eins og síminn sé sleginn úr höndunum á mér, ég hálfpartinn missi hann og strýk yfir skjáinn í leiðinni og tekst að ýta á “2” og send!!! Neiiihhhhhhhjjjjjjj!! Ég sendi honum 2!!!
Eftir þetta fíaskó ákvað ég að láta staðar numið en í rælni segi ég systur minni frá ósköpunum. Hún ákveður að taka ekki uppgjöf mína í mál og býður honum með mér í bíó á Svartur á Leik og hann samþykkir. Við förum á dobbúl deit, ég og Mr. Big og systir mín og maðurinn hennar.
Eftir myndina kíkjum við svo heim til syss í bjór og spilerí og þá laumar Mr. Big því að mér að hann hafi einmitt verið í Reykjavík helgina áður og smellt sér í bíó… á SVARTUR Á LEIK! Hann s.s var nýbúinn að sjá hana en langaði svo óttalega á deit með mér að hann ákvað að láta þetta smáatriði ekki stoppa sig…
Núna, tæplega einu ári seinna, erum við bæði hamingjusamari og ástfangnari en okkur hefði grunað að væri hægt og ég verð systur minni þakklát ævilangt fyrir þessa óþarfa framtakssemi og afskiptasemi.
Kv
Hrafnhildur Viðarsdóttir
Lestu meira um örsögukeppni Pjatt.is HÉR – við drögum út glæsilega vinninga á Valentínusardag.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.