Oprah Winfrey hefur áorkað ótrúlegum hlutum á ævi sinni. Að telja upp öll hennar frábæru verkefni og langa feril tæki allan daginn en það mætti þó segja að þetta sé einstaklingur sem á sér engin takmörk.
Oprah sjálf var alltaf fullviss um eigin krafta þangað til fyrir stuttu þegar fjölmiðladrottningin fór að finna fyrir brestum í andalegri heilsu sinni og einkennum sem líktust taugaáfalli.
Eftir að hafa stofnað sína eigin sjónvarpsstöð, OWN, árið 2011 og ekki fengið þær viðtökur sem búist var við fór að halla undir fæti hjá athafnakonunni. Hún fann fyrir gífurlegum kvíða og á tímapuntki fann hún varla orkuna til að hugsa.
Í stað þess að draga sig í hlé og slaka á reif Oprah sig upp og tók að sér bæði verk framkvæmdarstjóra stöðvarinnar og gerðist listrænn stjórnandi hennar. Þegar áhorf minnkaði enn meira ákvað Oprah að byrja með nýjan þátt, Oprah’s Next Chapter. Þar tekur hún viðtöl við stórstjörnur sem, líkt og Oprah, standa á erfiðum tímum.
Meðal annars hefur hún rætt við hjólreiðamanninn Lance Armstrong sem olli miklu fjaðrafoki í íþróttaheiminum eftir að hafa viðurkennt að hafa neytt ólöglegra lyfja. Þar að auki tók hún langt viðtal við Lindsay Lohan eftir að hún kom úr seinustu meðferðinni og ræddum þær m.a. um fíknir leikkonunnar ungu.
,,Að vera á toppnum í 25 ár og allt í einu sjá allt fara á niðurleið er hræðilega erfitt. Að gera mistök er besta leiðin til að læra, og það hef ég upplifað núna”
Oprah segist nú þakklát og auðmjúk fyrir að hafa fengið þessa miklu áskorun og heldur ótrauð áfram að endurbyggja fjölmiðlaveldið sitt.
Meira að segja ofurkonur eins og Oprah eiga sín erfiðleikatímabil en gullna reglan er að gefast aldrei upp! Standa upp, dusta af sér rykið og halda áfram þótt þú hrasir.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.