Fyrir fáeinum árum hefði ekki nokkur tískuspekúlant látið sjá sig í ömmulegum nærbuxum sem veita stuðning og aðhald fyrir maga og mjaðmir. Hvað þá ömmulegum nærbuxum úr ull í verstu vetrarkuldum. Nei, frekar myndu tískudrósirnar frjósa og fá blöðrubólgu !
Svo birtist Bridget Jones íklædd aðahaldsnærbuxum og allt varð vitlaust. Fókusinn beindist á ný að þessum ömmulegu nærbuxum og salan rauk upp úr öllu valdi hjá undirfatatfyrirtækjum. Það er ekki bara Bridget Jones sem hefur auglýst ömmunærfatnaðinn, heldur einnig leik-og söngkonur í Holloywood.
Þær eru ófeimnar við að segja frá því að til að hafa línurnar flottar á rauða dreglinum notist þær við aðhaldsundirfatnað. Flest nærfatafyrirtæki bjóða nú undirföt með aðhaldi, sokkabuxnaframleiðendur einnig.
Til að vera ekki eftirbátur kynsystra minna sem haga seglum eftir vindi ákvað ég að klæðast nú eins og menn ættu að gera sem búa á Íslandi. Burt með g-strenginn sem var mig lifandi að drepa því bossinn verður svo kaldur, nú er það ullinn sem blífur!
Það var reyndar vinur minn sem er smiður sem kom með þessa snilldarhugmynd. Hann sagðist alltaf nota ullarnærbuxur yfir vetrartímann… en það er nú sjálfsagt aðeins meira aðlaðandi á karlmanni en kvenmanni.
Jæja, þessar brækur fann ég engu að síður í Janusbúðinni. Þær eru hvítar, ná upp að nafla og eru úr 100% merino ull. Það klæjar ekki undan henni og ég keypti auðvitað síðerma ullarbol í stíl til að hafa þetta í lagi.
Merkilegt… já, það er það fyrir konu sem var síðast í ull þegar hún var á bleyjualdri. Kvefið og hóstinn hurfu eins og skot, auðvitað þegar ullinn komst að kroppnum til að halda á honum hita. Það fyndna er að mér finnst þetta líka mjög smart, þetta er nákvæmlega jafnflott og hjá piparjónkunni Bridget Jones.
Hiklaust uppáhaldið mitt núna! Áfram með ullina!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.