Hefurðu pælt í því að það er alveg sama hvað maður vinnur við, maður er alltaf að þjónusta þarfir einhvers annars og þetta gerir bókstaflega öll störf að þjónustustörfum.
Klipparinn klippir hárið á þér, tannlæknirinn lagar tennurnar og söngvarinn skemmtir þér. Rafvirkinn sér til þess að þú getir kveikt á sjónvarpinu og snyrtifræðingurinn passar að húðin á þér þorni ekki alveg upp. Forstjórinn reynir að passa að símafyrirtækið sem þú verslar við fari ekki á hausinn og þjónninn og plötusnúðurinn leggja sig fram um að brúðkaupsveislan haldi öllum hoppandi kátum. Blaðakonan reynir að færa þér fréttir og afþreyingu sem þú hefur gagn eða gaman af og sálfræðingurinn reynir að hjálpa þér að vera minna kreisí.
Það er bókstaflega sama hvað við vinnum við, alltaf erum við að þjónusta þarfir annara og þar af leiðandi eru öll störf þjónustustörf. Samt höfum við alveg furðulegan tendens til að flokka störfin sem góð eða léleg og hvað veldur því að eitt lendir á lélega skalanum en annað á góða er hálfgerð mystería finnst mér. Maður er hvort sem er alltaf að sinna fjölbreyttum þörfum meðborgara sinna.
Há laun en lítil lífsgæði
Vinur minn var einu sinni í hátt launuðu starfi hjá stóru fjármálafyrirtæki. Starfi sem öllum fannst svaka fínt. Samt þurfti hann stundum fyrirvaralaust að standa upp frá kvöldmatnum með fjölskyldunni og rjúka í vinnuna þó það væri komið fram langt á kvöld. Oft þurfti hann að fara erlendis á fundi eldsnemma um morgun og koma heim eldsnemma næsta dag. Ömurlega þreyttur, með ferðabjúg og illa sofinn. En hey, góð laun, flottur titill!
Vinnumarkaðurinn hérna hefur verið lengi að taka við sér en sem betur fer er fólk að byrja að átta sig á því að 8+ kls vinnudagur er ekki endilega málið og að „lífsgæðakapphlaupið“ felur ekki alltaf í sér lífsgæði. Ein lausnin við þessu er að stytta vinnuvikuna og reynslan hefur sýnt að þetta er virkilega að gera sig. Less is more. Í tilraun sem var nýlega gerð í Japan kom í ljós að framleiðni jókst um 41% þegar fólki var gefið frí á föstudögum. Það er ekkert smáræði.
Bónusdrottningar, lyklabörn og skjábörn
Hvernig gengur þetta upp? Jú sko…. Nánast engir Íslendingar vinna í verksmiðjum lengur. Þegar iðnbyltingin átti sér stað gekk allt út á að framleiða og framleiða, standa við færiband og hamast. Hér á Íslandi stóðu flestir við færibandið í frystihúsinu og flökuðu fisk og þær sem unnu mest og hraðast urðu bónusdrottningar. Um leið urðu börnin að lyklabörnum og í dag eru þau bæði lykla -og skjábörn. Takmörkuð samvera fjölskyldunnar gerir fæsta hamingjusama.
Með fjórðu iðnbyltingunni hafa vélarnar hinsvegar tekið við og flestar verksmiðjur eru í minna þróuðum löndum. Mennningin er samt alltaf þannig að sumt mjakast áfram meðan annað stendur í stað. Dæmi um þetta eru löng sumarfrí skólabarna á Íslandi. Börnin fóru jú alltaf í sveitina að vinna á sumrin en *hóst* halló? Er það ekki löngu búið?
Þegar starfið þitt gengur meira út á að sitja við tölvu en að standa við færiband þá meikar það ekki sens að ætlast til þess að þú sért að „framleiða“ í 8 kls yfir daginn. Stór partur af deginum fer í að ráfa um Facebook, gúggla ferðalög og plana helgina. Fyrirtækið borgar þér fyrir tímann þinn en á sama tíma er ekki hægt að ætlast til þess að þú sért að vinna allann tímann. Þegar þú svo sleppur út þá fara næstu tveir tímar í að hamast; ná í krakkana, kaupa í matinn, hanga í umferðinni. Þetta eru ekki beint lífsgæði, nema þér finnist bara svaaaaakalega gaman í vinnunni og setjir hana ofar öllu (sem er frábært! – ef þú átt ekki börn).
Þarf lífið að vera 9-5?
Nei nei nei nei… Staðreyndin er sú að þú getur stokkið í allskonar vinnur, bæði sem verktaki og í hlutastörfum og svo lengi sem þú ert ekki með fordóma fyrir störfum, og lítur á öll störf sem þjónustustörf, þá ertu í toppmálum.
Einn vinur minn, virðulegur fjölskyldufaðir á fimmtugsaldri, starfar til dæmis sem forritari með sveigjanlegan vinnutíma á daginn og tekur svo helgarvaktir sem barþjónn inn á milli, enda krakkarnir hans orðnir stórir.
Kona sem ég þekki gerir vefsíður, kennir á myndlistarnámskeiðum, þrífur í heimahúsum og rekur vefverslun. Svo þekki ég annann sem vinnur á varðskipi og keyrir leigubíl inn á milli og annar er bæði sjómaður, tónlistarmaður og DJ. Þá þekki ég líka hjúkku sem færði sig yfir í afleysingar, fékk meiri fjölbreytni og losnaði við næturvaktirnar.
Með því að festast ekki í titlatogi og starfasnobbi, og stíga út úr óttanum við peningalegt öryggisleysi, og hvað þá álit annara, er hægt að fá miklu meira svigrúm og frelsi, og jafnvel miklu meiri tekjur. Suma dreymir um að komast út úr 9-5 rútínunni og sem betur fer geta það alltaf fleiri og fleiri því 21. öldin býður upp á svo marga möguleika. Það þarf bara opinn huga og pínu ponsu hugrekki. Það sakar ekki að taka sénsinn.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.