Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis og fíkniefnavanda hefur staðið fyrir nokkrum áhugaverðum fyrirlestrum frá því að félagið var stofnað.
Fjölsóttasti viðburður Rótarinnar á síðasta starfsári var þegar Gyða Eyjólfsdóttir og Monika Skarphéðinsdóttir, sem báðar eru sálfræðingar, fræddu áhugasama um svokallaða Ace-rannsókn á áhrifum erfiðra upplifana í æsku á heilsufar síðar á ævinni.
Þann 8 október ætla þær að kynna svokallaða EMDR áfallameðferð.
Gyða er með doktorsgráðu í ráðgjafarsálfræði frá The University of Texas í Austin. Hún skrifaði doktorsritgerðina sína um sálfélagslegar hliðar grindargliðnunar á meðgöngu og fékk þá áhuga á erfiðum upplifunum í æsku og áhrifum þeirra á einstaklinginn síðar á lífsleiðinni.
Hún ákvað að læra EMDR áfallameðferð til að geta aðstoðað einstaklinga við að vinna úr áföllum og erfiðum upplifunum og hefur sérhæft sig í henni. Þannig vinnur hún með skjólstæðingum sínum að úrvinnslu áfalla, bæði stórra og smárra, auk þess sem hún handleiðir aðra EMDR meðferðaraðila og heldur námskeið í tengslum við EMDR áfallameðferð. Hún hefur líka sérhæft sig í tilfinningahliðum ófrjósemi.
Monika Skarphéðinsdóttir er sálfræðingur með cand. psych. gráðu frá Háskóla Íslands. Frá útskrift hefur hún unnið með Þórdísi Rúnarsdóttur, Psy. D., sálfræðingi og Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðingi í málum sem hafa með sérsvið þeirra að gera.
Þannig vinnur hún að ófrjósemis- og áfallamálum með Gyðu og hjónamálum með Þórdísi. Monika hefur sérstakan áhuga á áfallamálum, tengslum atburða í æsku við líðan skjólstæðinga og úrvinnslu þeirra. Monika er að ljúka námi í EMDR áfallameðferð og hyggur á frekari námskeið á því sviði til að bæta við sína sérhæfingu.
Hér má kynna sér EMDR frekar: www.emdr.is.
Umræðukvöldið verður haldið hinn 8. október kl. 20 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík. Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar og aðgangur er ókeypis en samskotabaukur er látin ganga.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.