Nú þegar umræða um væntanlega fegurðarsamkeppni er á margra vörum langar mig eitt andartak til að tengja umræðuna um útlitsdýrkun að því hvaða slíkar áherslur geta haft á ungar og óharðnaðar sálir barna og unglinga.
Þetta er ekki neitt nýtt en er eitthvað vit í dag, árið 2013, að ýta undir svo óskynsamlega og persónuleikabrenglandi hugsun. Er samfélagið komið út á ranga braut í þessum efnum?
Fyrir nokkrum árum gekk lítil 8 ára hnáta fram hjá mér – og af klæðalitlum sumarfatnaðinum að dæma var augljóst að innan klæða klæddist hún svonefndum G-streng.
Þessi litla hnáta var þétt á velli, nokkuð þybbinn- og stelpurnar í skólanum áttu það til að kalla ýmislegt neikvætt á eftir henni, orð sem ég vil ekki hafa eftir hér.
Einmana með brenglaða sjálfsmynd
Litla stúlkan var oft einmana – klæddi sig gjarnan upp og gekk í níðþröngum buxum, magabol og oft á smá hælaskóm. Vafalítið yndæl lítil stúlka en með dálítið brenglaða sjálfsmynd og var að reyna að líta út fyrir að vera eitthvað allt annað en hún ætti að vera. Þetta var ekki einstakt tilvik, heldur gerðist þetta áberandi oft. Þá varð mér spurn hvernig í ósköpunum foreldrar stúlkunnar létu þetta viðgangast – eða var hugsanlega einhver í fjölskyldunni að ýta undir þetta á einhvern hátt?
Eitt sinn þegar ég sótti barn á leikskóla heyrði ég 5 ára stúlku hreyta því í aðra að sú væri fitubolla, hún ætlaði sko ekki að leika við hana! Eins hef ég heyrt af börnum sem ekki vilja borða kvöldmatinn sinn heima því þau séu orðin svo feit! 6 ára börn, tágrönn!! Hvað er eiginlega í gangi? Hvert eiga þessar ranghugmyndir rætur að rekja?
Þetta viðhorf til „sveltis“ á því miður líka við ótrúlega marga unglinga í dag. Hvers vegna er þetta svona? Já , og ungar stúlkur – og pilta – um tvítugt.
Svo eru það unglingsstúlkurnar okkar, klæðaburður þeirra dags daglega og svo á skólaskemmtunum. Fyrir um 10 árum þótti mér áberandi hve stúlkur, rétt búnar að ná fermingaraldri, voru í klæðalitlum fatnaði á skólaskemmtunum. Bolirnir og kjólarnir svo flegnir að myndir teknar á skólaskemmtunum gætu nær hafa verið teknar af vafasömum vefsíðum. Svo er þetta í allt of mörgum tilvikum enn í dag.
Æskilegur klæðnaður?
Mér þótti því lofsvert framtak í grunnskóla einum þar sem ég kom í heimsókn í vetur að þar á áberandi stað á göngum voru tilmæli frá kennurum og skólastjórn um hvernig fatnaður væri æskilegur í skólanum.
Ef starfsfólki skólans þætti sem fatnaður nemenda væri ekki innan ákveðinna „siðsamlegra“ marka þá hefði starfsfólkið leyfi til að gera athugasemd þar að lútandi og viðkomandi yrði þá hugsanlega að fara heim og skipta yfir í klæðameiri föt. Hvers vegna þótti þetta nauðsynlegt? Veltið því fyrir ykkur.
Hvaða skilaboð sendir þjóðfélagið æsku landsins með því að hampa ákveðnum gæðastimplum sem miðast við ákveðið útlit ungs fólks, ákveðnum klæðaburði og „sexý lúkki“. Er þetta það sem við viljum leggja áherslu á? Hvað vilt þú ?
Hugleiddu þetta og myndaðu þér þína eigin skoðun á því hvaða áherslur þú telur mikilvægar fyrir unga fólkið okkar til að byggja sig upp sem „heilbrigða, glaða og hamingjusama“ einstaklinga sem nýta hæfileika sína á skapandi hátt – eins og hæfileikar og áhugi hvers og eins stendur til.
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!