Ég hef tekið eftir því að margar konur í kringum mig ætla sér alveg ofsalega mikið.
Þær ætla sér að vera frábærar mömmur, með eitt eða fleiri börn.
Þær ætla sér að líta alltaf vel út, vera í fötum sem kosta, með töskur sem kosta, á bílum sem kosta.
Þær ætla sér að fá rosalega góða menntun og vinna með skólanum, vera í fullkomnum samböndum, ná stjórnenda, eða að minnsta kosti millistjórnendastöðu í vinnunni, fá há laun, hjóla hringinn, stunda jóga, gera bollakökur og makkarónur, mæta á handbolta/fótbolta/dans hjá krökkunum, vera ekki með rót, vera mátulega brúnar en ekki of brúnar, vera í góðu formi, búa á snyrtilegu heimili, borða ekki glútein, ekki laktósa og alls, alls, alls ekki SYKUR…
Þetta þarf allt að vera í toppstandi. Það þarf allt, alltaf að vera 150%.
Á kvöldin, þegar þær koma heim… fá þær sér smá rauðvín og horfa á Ólafíu Pope fá sér rauðvín.
Skrolla 5 kílómetra á Facebook fyrir svefninn og sjá hvað aðrir hafa það gott. Jafn gott og þær. Millistjórnendur og stjórnendur að rúll’essu upp. Svo fá þær sér litla pillu til að sofna. Næsti dagur…
En hvað?
Depurðin sem fylgir daglegri rauðvínsdrykkju byrjar að gera vart við sig, það er ekki hægt að ná þessu stressi úr sér, samt er rauðvínið svo nauðsynlegt til að tappa af álaginu. Maður þarf aðeins að slaka á.
Dag einn springur andlega blaðran hjá ofurkonunni. Það bara gerist eitthvað. Það þenst allt út og svo BAMM!
„Ég var bara að brjóta saman þvottinn og fór allt í einu að hágráta.” sagði vinkona við mig um daginn.
„Ég bara gat ekki meira.” Næsta mánuð var hún á náttfötunum heima hjá sér þar til hún gat mannað sig upp í labbitúra og er nú á réttri leið. Hún fær sér bara rauðvín spari en hlustar daglega á jazz. Af því hún elskar jazz.
Aðra konu þekki ég sem á dóttur með átröskun. Stelpan fór á geðdeild, mamman að skilja á sama tíma, svo dó besta vinkona hennar úr krabba. Samt átti bara að halda áfram í single Stepford mom prógramminu.
Fullkomið hár, brún en ekki of brún, með enga rót, on the road á fáranlega dýra hjólinu sínu. Skemmst er að segja frá því að hún “hjólaði” sjálf á Reykjalund áður en langt um leið. Alveg búin á því.
Þær leggja og leggja og leggja á þar til í óefni er komið og átta sig ekki á því fyrr en í morgunmatnum á Reykjalundi.
Hvað gerðu ömmur okkar?
Ég held að ömmur okkar hafi ekki tekið þetta svona langt… og þó?
Rolling Stones sungu um litlu gulu pilluna sem kallaðist “Mothers little helper” og áttu þar við róandi. „What a drag it is getting old.”
Málið er að flestar ömmur okkar voru “bara” að hugsa um heimilið og það þótti ‘full time job’ og rúmlega það.
Við, hinsvegar, erum LÍKA að hugsa um vinnuna, menntunina, vöxtinn, lúkkið, launin, mataræðið og metnaðinn.
Börnin okkar eru í þremur tómstundum meðan mamma og pabbi voru kannski í einni íþrótt. Og ekki hafði amma Facebook eða Instagram til að rugla sig í rýminu. Hvað þá fótósjopp.
Ofurhetjuskikkja eða fuck it?
Hvað ef við færum bara að ganga um með ofurhetjuskikkjur?
Kannski væri hægt að sauma vasa innan á skikkjurnar fyrir rauðvín og róandi? Það gæti staðið RR aftan á skikkjunni.
Eða hvað með að hætta þessu rugli bara og segja Fuck it?
Maður á bara eitt líf og grundvallaratriði í þessu lífi er að lifa því ekki fyrir aðra en sjálfan sig fyrst og fremst, svo börnin sín og þessa fimm sem maður elskar mest.
Aðrir eru félagar, vinir og kunningjar sem koma oftast og fara og það skiptir engu máli hvað þeim finnst. Ekki ef þú hugsar um það. Þú veist það.
Hvað með að færast ekki svona mikið í fang?
…ætla sér ekki svona ofsalega mikið. Afmarka stund, að minnsta kosti einn dag í viku, þrjá, fjóra, fimm, sex tíma sem eru bara “me time” þar sem þú gerir ekkert annað en það sem er uppbyggilegt og ótrúlega skemmtilegt fyrir þig. Eitthvað sem þig langar, eitthvað sem skilar engum árangri í hefðbundinni merkingu þess orðs.
Ef þér finnst gaman að hlusta á Brimkló eða One Direction og borða grillaðar samlokur með osti og sveppum. Gerðu það þá. Ef þér finnst gaman að dútla í garðinum. Gerðu það þá. Taktu þér tíma fyrir það sem þér finnst gaman.
Og hvað með að skrá sig úr áfanganum, hætta í aukavinnunni, ráða aðstoð við heimilisþrifin, segja hingað og ekki lengra við yfirmanninn?
Það má ekki þenja andlegu þolmörkin út að því ysta þannig að ef eitthvað kemur upp á, eins og t.d. óhöpp, veikindi eða annað, þá fáirðu hreinlega taugaáfall og endir á stofnun eða stórum lyfjaskammti.
Til hvers ertu að þessu?
Það er stærsta spurningin. Því næst… Hvað viltu? Nákvæmlega.
Þó þú takir þér eitt eða tvö ár í að svara þessari spurningu þá er það vel þess virði. Hafðu hana bara ávallt ofarlega í huga og fasta í undirvitundinni. Athugaðu líka að kannski “heldurðu bara” að þig langi eitthvað óskaplega mikið en þegar betur er að gáð þá ertu kannski búin að breytast og langar meira til að gera eitthvað allt annað. Það má skipta um skoðun. Það má breytast.
Pass á taugaáfall
Ég veit að mig langar ekki að fá taugaáfall og mig langar ekki að ganga um í RR skikkju.
Ég veit að mig langar að eiga gæðastundir með dóttur minni og manni. Ég veit að mig langar í góða andlega og líkamlega heilsu og fá útrás fyrir hæfileika mína.
Nú er ég handviss um að ég nái þessu ekki með því að troðfylla daginn af allskonar fundum og verkefnum og reyna líka að vera fín og sæt, með allt tipp-topp heima hjá mér alla daga, alltaf.
Þannig að ef þið sjáið mig ófótósjoppaða og ómálaða í pokabuxum og loðskóm, með sólgleraugu og sushi í Krónunni, ekki þá hugsa að þarna fari algjörlega afvegaleidd pjattrófa.
Nei, þarna fer kona sem er að taka sér árið í að hugsa þetta og komast til botns í málinu.
Veit upp á hár hverja hún elskar og vinnur staðfastlega í að forðast Reykjalund þó einhver bjáni klessi bílinn hennar, gæludýrið sé með krónískt harðlífi og að í kjallaranum bíði 127 ósorteraðir stakir sokkar. Flestir svartir. Í þremur stærðum. Svo fátt eitt sé nefnt.
Það verður eitthvað undan að láta og það er best ef geðheilsan verður ekki eitt af því. Frekar hendi ég þessum helvítis sokkum.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.