Hnetur, fræ og þurrkaðir ávextir eru miklir orkugjafar og í dagsins önn getur verið gott að narta í slíkt góðgæti á milli mála enda um mjög holla orku að ræða. Hnetur og fræ eru jafnan flokkuð með svokölluðu ofurfæði því í þeim er mikið magn vítamína, steinefna og annarrar næringar sem okkur er nauðsynleg.
Ég hef jafnan hnetur og fræ í skál á eldhúsborðinu sem heimilisfólkið nartar í og stundum krydda ég þau og rista í ofni eða á pönnu. En til að breyta út af vananum er líka gott að búa til orkustykki. Þau eru afbragð með mjólk eða kaffisopanum og hentug að grípa með sér út úr húsi eða stinga í nestispakka, fyrir utan það hve dásamlegur ilmur kemur í húsið þegar þau eru bökuð!
Það er gaman að fikra sig áfram í ,,orkustykkjagerðinni‘‘, prófa hin ýmsu fræ, hnetur og ávexti en hér er ein skotheld uppskrift sem einnig er hlaðin haframjöli sem eykur enn á næringuna og gerir stykkin matarmeiri en ella. Uppskrift að orkustykkum…
- 50 g pekanhnetur
- 130 g haframjöl
- 50 g fræ, graskersfræ, sólblómafræ og/eða sesamfræ
- 70 g þurrkuð trönuber og/eða rúsínur
- smá salt, ca. 1/4 tsk.
- 1 tsk. kanill
- 80 g smjör
- 1 dl hunang
- 50 g demerara hrásykur (má nota púðursykur)
Ristið á þurri pönnu hnetur, haframjöl og fræ í nokkrar mínútur, eða þar til haframjölið og fræin byrja að poppa aðeins. Hrærið vel í á meðan og passið að brenni ekki. Hellið í stóra skál og látið mestan hitann rjúka úr. Kryddið með kanil og smá salti og bætið trönuberjum og /eða rúsínum saman við. Bræðið smjörið í potti og hrærið hrásykri/eða púðursykri ásamt hunangi saman við. Látið suðuna koma upp og lækkið hitann. Leyfið blöndunni að malla aðeins þar til hún verður ljósbrún, slétt og þykk. Hrærið vel í á meðan og fylgist með hitanum. Hellið síðan yfir haframjölsblönduna og blandið vel saman. Setjið síðan blönduna og þjappið í ferkantað, ofnfast mót sem klætt hefur verið bökunarpappír, og bakið í um 20 mínútur við 170 gráður. Látið kólna áður en skorið í bita og borið fram.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.