Við viljum fæst trúa því að átrúnaðargoðin okkar séu fær um að gera flugu mein, hvað þá að fremja ofbeldisverk. En þeir eru ófáir frægu karlarnir í Hollywood sem hafa verið annaðhvort sakaðir um eða sakfelldir fyrir ofbeldi af ýmsu tagi.
(Ég geri mér grein fyrir því að það eru margir starfandi í Hollywood sem hafa framið misalvarlega glæpi, ég geri mér líka fulla grein fyrir því að þessir aðilar eru af báðum kynjum en hér ætla ég sérstaklega að fjalla um ofbeldi af höndum karlmanna sem enn eru „frægir“, starfandi og jafnvel virtir.)
1. Woody Allen
Woody Allen er alls ekki allra en er samt sem áður mjög virtur leikstjóri. Margir af mínum uppáhalds leikurum hafa leikið í myndunum hans og hann hefur fengið fjöldan allan af verðlaunum fyrir myndirnar sínar.
Hann hefur verið nokkuð umdeildur síðan snemma á tíunda áratug seinustu aldar þegar hann hætti með kærustu sinni (Miu Farrow) til 12 ára til þess eins að byrja með ættleiddri dóttur hennar sem var 19 ára.
Woody var þá sjálfur 55 ára. Það finnst öllum skiljanlegt að Mia hafi orðið brjáluð af reiði þegar hún uppgötvaði samband þeirra og margir hafa sagt að sú reiði útskýri það sem gerðist næst. Mia sakaði Woody um að hafa misnotað dóttur þeirra, Dylan, kynferðislega. Málið var hins vegar látið niður falla vegna ónægra sannana og vegna þess að Mia sá ekki ástæðu til að sækja málið lengur (og valda Dylan frekari sársauka) þar sem hún fékk fullt forræði yfir börnum þeirra og Woody var neitað um umgengni við Dylan.
Í seinni tíð hefur lítið verið fjallað um það að Woody hafi verið sakaður um að vera barnaníðingur og Mia hefur fengið þann stimpil að vera brjáluð. Stimpil sem konur sem berjast fyrir réttlæti virðast alltof oft fá. Um daginn sendi Dylan hins vegar sjálf opið bréf til The New York Times þar sem hún segir frá sinni reynslu af því ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi föðurs síns.
2. R. Kelly
R. Kelly skaust fljótt upp á stjörnuhimininn og það kannast líklega flestir við að hafa blastað “I Believe I Can Fly” einhvertíma. R. Kelly byrjaði hins vegar snemma að sýna á sér dökkar hliðar.
Hann giftist hinni 15 ára gömlu Aaliyah þegar hann var 27 ára, en hjónabandið var seinna ógilt.
Árið 1996 var hann kærður af Tiffany Hawkins fyrir að hafa átt kynferðislegt samræði við hana þegar hún var 15 ára og hann 24 ára, samið var um málið utan dómstóla og fékk Tiffany 250.000$ í bætur. Árið 2002 birtist myndband þar sem R. Kelly sást eiga í kynferðislegu samræði við og pissa á 13 ára stúlku. R. Kelly var kærður en málið fór ekki fyrir dóm fyrr en 6 árum seinna þar sem Kelly var sýknaður af öllum ákæruliðum. Hér er hægt að lesa um allar þær ásakanir sem færðar hafa verið á hendur R. Kelly í gegnum tíðina.
R. Kelly er greinilega með fólk sem gefur honum góð ráð því hann beið í nokkur ár þar til allir voru búnir að gleyma ásökununum og kom þá aftur fram í sviðsljósið með hvelli. Hann gaf út nýja plötu á seinasta ári og gaf út tvo smelli með Justin Bieber og Lady Gaga. Lagið hans og Lady Gaga ber það ótrúlega óviðeigandi nafn “Do What U Want (With My Body)”.
Lady Gaga kann svo sannarlega að velja þá því sá sem leikstýrði myndbandinu við það lag er svo næstur á listanum. Góða grein um það af hverju stjörnur eins og Lady Gaga halda áfram að vinna með “krípum” eins og R. Kelly má svo finna hér.
3. Terry Richardson
Terry er ekki beint frægur en ef þú býrð í hinum vestræna heimi eru sirka 99,99% líkur á því að þú hafir séð, eða allavega heyrt um, eitthvað sem hann hefur gert.
Hann hefur leikstýrt slatta af tónlistarmyndböndum og er eftirsóttur ljósmyndari. Hann hefur sérstakan stíl og myndirnar hans eru auðþekkjanlegar. Hráar, með hvítum bakgrunni og oftar en ekki pósar hann með módelunum sínum með tvo þumla upp í loftið.
Hann hefur það á móti sér að það er mjög auðvelt að horfa á hann og fordæma hann fyrir það eitt að líta perralega út. Það sem verra er (eða betra?) er samt að þeir sem horfa á hann og hugsa það hafa rétt fyrir sér.
Terry hefur verið sakaður um að áreita minna þekktar fyrirsætur sínar í fjölda ára en einhverra hluta vegna heldur hann samt áfram að vera eftirsóttur og allar helstu stjörnur samtímans hafa verið myndaðar af Terry, meira að segja þær stjörnur sem eru þekktar fyrir að hafa femininískustu gildin í Hollywood, þar með talið Beyonce, Louis C.K., Lena Dunham, Ricky Gervais, Zooey Deschanel og meira að segja Oprah! Eina stjarnan sem hefur opinberlega sagst hafa séð eftir að hafa unnið með Terry er Lena Dunham en ein besta vinkona hennar var í sambandi með Terry í rúm 3 ár.
4. Charlie Sheen
Charlie Sheen er líklega með lengsta “rap sheet-ið” á þessum lista.
En það sem hefur komið fram um hann er eftirfarandi: skaut þáverandi unnustu sína, Kelly Preston, í handlegginn (óvart…og hey ég beini líka oft byssu að fólki án þess að ætla að skjóta það…), var eitt af aðalvitnunum í máli gegn Heidi Fleiss þar sem hann hafði keypt af henni hórur fyrir um það bil 50.000$, var sakfelldur fyrir ofbeldi gagnvart þáverandi kærustu sinni Brittany Ashland, Denise Richards fékk nálgunarbann á hann vegna þess að hann beitti hana líkamlegu og andlegu ofbeldi á meðan á hjónabandi þeirra stóð og hann hótaði líka að drepa hana. Charlie er tekinn fastur fyrir ofbeldi gagnvart þáverandi eiginkonu sinni Brooke Mueller en það fól meðal annars í sér að hann hélt hníf að hálsi hennar, Charlie er tekinn fastur fyrir að beita Capri Anderson ofbeldi og rústa svo hótelherberginu sem þau dvöldust á á meðan hún læsti sig inn á baði.
Charlie hefur eins og við flest vitum gert margt annað misskemmtilegt en þetta eru þær ofbeldiskærur sem hann hefur fengið á hendur sér. Þrátt fyrir þær allar hélt hann enn stöðu sinni sem virtur leikari í Hollywood og um tíma var hann meira að segja hæstlaunaðasti leikari í sjónvarpi, þá vinnu missti hann ekki fyrr en hann talaði opinberlega illa um Chuck Lorre (skapara og framleiðanda Two and a Half Men)… ég er ekki að segja að það sé ekki slæmt en eftir allt sem á undan var gengið af hverju var ekki löngu búið að reka hann og fyrst það var ekki búið að reka hann var þá ekki við einhverju svona að búast af honum?
Næstu daga, vikur og mánuði skemmtum við okkur öll við að hlæja af vitleysunni sem kom upp úr manninum en persónulega er ég hætt að hlæja þar sem Charlie er lítið annað en fárveikur ofbeldismaður.
5. Roman Polanski
Roman Polanski var handtekinn árið 1977 fyrir það að hafa hellt 13 ára stúlku fulla og átt svo við hana kynferðislegt samræði.
Áður en dómur féll í málinu flúði Polanski til Frakklands þar sem hann bjó lengi. Hann var svo handtekinn í Sviss en svissnesk yfirvöld slepptu honum á endanum og neituðu að framselja hann til Bandaríkjanna.
Polanski hefur haldið áfram að gera stórmyndir og fékk meðal annars Óskarinn fyrir mynd sína The Pianist árið 2002. Margir frægir einstaklingar hafa komið honum til varnar (kaldhæðnislega eru bæði Woody Allen og Mia Farrow á þeim lista) og vilja að málið verði látið niður falla, Whoopi Goldberg sagðist til dæmis vera viss um að nauðgunin hefði ekki verið “rape-rape” og þess vegna ætti að hleypa honum aftur til Bandaríkjanna.
6. Terrence Howard
Terrence Howard á mjög dimma fortíð… og nútíð. Hann á tvær fyrrverandi eiginkonur en báðar hafa þær nefnt ofbeldi hans gagnvart þeim sem ástæðu fyrir skilnaðinum.
Hann hefur einnig lent í vandræðum fyrir að ráðast á flugfreyju, fyrir að ráðast á par sem fékk sæti á undan honum og fyrir að halda þáverandi viðhald sitt/kærustu hálstaki og kýla hana í augað.
Það hafa einnig gengið sögur um að Terrence sé erfiður í samstarfi og það sé meðal annars ástæðan fyrir því að hann missti hlutverk sitt í Iron Man til Don Cheadle en staðreyndin er samt sú að hann fær hlutverkið í hverri stórmyndinni á fætur annarri þrátt fyrir ofbeldið sem hann beitir konur.
7. Chris Brown
Chris Brown er orðinn nokkuð þekktur fyrir það ofbeldi sem hann beitti fyrrverandi kærustu sína, Rihönnu, og eitthvað minna fyrir tónlist sína.
Hann var fordæmdur um allt fyrir að hafa ráðist á söngkonuna og það réttilega.
Hann var dæmdur til samfélagsþjónustu og til að fara á skapstjórnunarnámskeið. Margir hafa bent á að ástæðan fyrir því að “herferðin” gegn Chris Brown hafi gengið svona vel vegna þess að hann er svartur. Fyrir mér persónulega skiptir húðlitur engu máli í þessu samhengi. Ofbeldi á sér aldrei afsökun nema í sjálfsvörn og það að öðrum sé ekki refsað þýðir ekki að það eigi ekki að refsa þér (þó auðvitað væri öllum refsað ef allt væri eins og það er best á kosið). Chris Brown hefur samt sem áður gefið út plötu síðan þetta var sem var að mestu vel tekið og hefur unnið með öðrum söngvurum að fjölda laga (þar með talið með Rihönnu sjálfri).
Chris Brown má eiga það að hann gaf út myndband með afsökunarbeiðni til aðdáenda sinna en hann var aðeins 19 ára þegar atburðurinn sem við flest munum eftir gerðist, það gerir gjörðir hans samt ekki neitt betri en hann hefur þó allavega kost á að bæta sig í framtíðinni. Persónulega hef ég þó ekki mikið álit á gjörðum hans að undanförnu en hann hefur verið handtekinn tvisvar, í annað skiptið fyrir að lenda í slagsmálum við Drake, sem Rihanna var með á þeim tíma, og í hitt skiptið fyrir að kýla mann fyrir utan hótel í Washington.
8. Sean Penn
Sean Penn er eins og allir mennirnir á þessum lista mjög hæfileikaríkur á sínu sviði (þó ég kunni ekki að meta hæfileika margra þeirra).
Eftir að hann skildi við Robin Wright Penn fyrir um það bil fimm árum síðan var eins og fólk myndi allt í einu eftir hjónabandi hans og Madonnu aftur sem var svo vægt sé til orða tekið mjög stormasamt, en hann beytti Madonnu mjög grófu líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi á þeim fjórum árum sem þau voru gift. Madonna þurfti tvisvar að leita á sjúkrahús og Sean fékk ákæru fyrir heimilisofbeldi.
Þar sem Madonna og Sean eru samkvæmt öllum heimildum vinir í dag býst ég við því að hann hafi beðið hana afsökunnar. Þar sem hann var með Robin Wright Penn í um það bil 20 ár eftir að hann skildi við Madonnu þá vona ég að hann hafi ekki beitt hana ofbeldi, en það sem mér finnst undarlegt er að eftir því sem ég best veit hefur hann aldrei fordæmt gjörðir sínar opinberlega. Vissulega er það engin skylda en í þeirri stöðu sem hann er í væri það gífurlega sterkur leikur…það er ef hann sér eftir gjörðum sínum.
9. Eminem
Það getur seint talist sem leyndarmál að Eminem beitti fyrrverandi (núverandi…verðandi…þetta er alltaf að breytast) konuna sína Kim ofbeldi.
Umdeilda lagið hans og Rihönnu “Love the Way You Lie” er til dæmis samið um samband Eminem og Kim.
Áður en það lag kom út hafði hann gefið út tvö lög um samband sitt og Kim. Annað þeirra bar einfaldelga nafnið Kim og var það lag samræður við dóttur þeirra og öskur hans á Kim sem enduðu með því að hann skar Kim á háls….fallegt… Hann hefur líka sagt og sungið margt fleira sem er ekkert nema hreint ofbeldi á konur.
10. Mike Tyson
Það fannst öllum ofboðslega fyndið þegar Mike Tyson kom fram í Hangover myndunum, enda fátt fyndnara en risastór, smámæltur hnefaleikari með andlitstattoo sem líka er nauðgari og ofbeldismaður.
Mike hefur verið greindur með geðhvarfasýki og líklega eiga gjörðir hans einhverja rót í veikindum hans, þau afsaka gjörðir hans samt ekki á meðan hann biðst ekki afsökunnar á þeim. Hann hefur viðurkennt að hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína ofbeldi en segir að það hafi bara verið vegna þess “að það var þannig samband”. En hún sótti um skilnað frá honum mánuði eftir að þau voru saman í viðtali hjá Barböru Walters þar sem hún sagði frá ofbeldinu sem hann beitti hana.
Tyson hélt samt áfram að vera frægur eftir viðtalið, seinna sat hann svo inni fyrir nauðgun sem hann neitar enn þann dag í dag að hafa framið með rökunum: “Hvernig getur maður nauðgað einhverjum sem kemur sjálfviljugur upp á hótelherbergið manns klukkan tvö að nóttu til”. Þegar Tyson kom út úr fangelsi hélt hann áfram að vera frægur, eftir að hann beit eyrað af Holyfield kannaðist svo hvert einasta mannsbarn við nafn hans en fáir vissu af öðrum glæpum hans. Tyson hefur beðið Holyfield afsökunnar en ekki þær konur sem hann hefur beitt ofbeldi.
Það eru einhverjir fleiri sem ég fann heimildir um að hefðu beitt konur ofbeldi þar með talið Michael Fassbender, Mickey Rourke og auðvitað Mel Gibson.
Mér finnst skelfilegt að vita að þessir menn séu enn starfandi í Hollywood. Þeir vinna enn í bransa sem snýst um það að þeir markaðssetja sjálfa sig sem persónu, í bransa þar sem ungir menn líta upp til þeirra og finnast ofbeldisverk þeirra jafnvel fyndin. Við samantekt þessa lista las ég fjölda greina um ofbeldisverk karlmanna í Hollywood og við þær flestar voru komment, í þessum kommentum var nær alltaf að finna komment frá fólki sem sagðist hefði gert það sama væri það frægt, komment eins og: “Hey, hann er Mike Tyson, hann má gera það sem hann vill.”
Af því það að vera framúrskarandi hnefaleikakappi eða Óskars- eða Grammy-verðlaunahafi réttlætir það að sjálfsögðu að beita aðra manneskju ofbeldi, eða er það ekki?
Sumum finnst eflaust að á meðan þessir menn báðu þá sem þeir beittu ofbeldi afsökunnar að þá sé málið afgreitt. En mér finnst það ekki nóg. Þessir menn eiga allir þátt í því að “normalisera” ofbeldi. Þeir eiga þátt í því að það þykir fyndið að pissa á 13 ára stelpu, þeir eiga þátt í því að það þykir fyndið að kalla konur boxpúða og þeir eiga vissan þátt í því að ofbeldi gegn konum er enn eins algengt og það er.
Þeir skulda sjálfum sér sem og öðrum að standa upp og útskýra fyrir þeim sem líta upp til þeirra að það sem þeir gerðu hafi verið rangt að þeir sjái eftir því og það sé aldrei réttlætanlegt að beita neinn ofbeldi af neinu tagi og að leita sér svo hjálpar. Aðeins einn á þessum lista hefur beðist afsökunnar opinberlega, Chris Brown.
Þeir sem fara með völdin í Hollywood og í tónlistarheiminum ættu að sjá sóma sinn í því að ýta ekki undir frægð ofbeldismanna eða að hjálpa til við að ýta glæpum þeirra undir teppið. Í dag á tímum samfélagsmiðla og alls þess getum við sem heima sitjum líka reynt að hafa áhrif á þessi öfl með því að láta vita af því þegar við erum óánægð.
Þessi aðferð hefur til dæmis verið mikið notuð gegn Terry Richardson og hefur orðið til þess að Lena Dunham sagði frá sinni reynslu af því að vinna með ljósmyndaranum og varð einnig til þess að hann missti auglýsingasamning.
Flestir af ofbeldisfullu körlunum í Hollywood hafa neitað að tala um sína ofbeldisfullu fortíð, eða nútíð…fyrir utan þá örfáu sem kenna konunum um eða þá sem finnst ofbeldi bara fullkomlega réttlætanlegt, eins og þessum “meistara”:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=oo0d1zTAFKA[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.