Í morgun sendi Kvennaathvarfið frá sér skýrslu sem greinir frá upplifun íslenskra kvenna af heimilisofbeldi og helstu persónueinkennum ofbeldismanna.
Könnunin, sem var gerð í haust, náði til 326 kvenna en alls greindu 202 þeirra, eða 62 prósent, frá því að þær höfðu reynslu af ofbeldissambandi. 6,5 prósent voru enn í ofbeldissambandi. Þær sem töldu sig ekki hafa verið í ofbeldissambandi voru 38 prósent svarenda.
Það er ansi óhugnarlegt að hugsa út í þessar tölur. Að rúmlega 60% kvenna hafi verið beittar ofbeldi af sambýlismönnum sínum, bæði líkamlegu og kynferðislegu, og 98 þeirra segjast hafa verið beittar andlegu ofbeldi en slíkt er ávallt undanfari annars ofbeldis.
Þá eiga margar konur sem tóku þátt í þessari könnun eitt eða fleiri börn, sem segir okkur að börn upplifa líka mikið ofbeldi á heimilum sínum.
Kynferðislegt ofbeldi í hverri viku eða oftar
Þessar niðurstöður eru svo skelfilegar að það hálfa væri nóg. Konurnar sögðust upplifa líkamlegt ofbeldi í hverri viku eða oftar, helmingurinn upplifði fjárhagslegt ofbeldi í hverri viku og 38 prósent kynferðislegt ofbeldi í hverri viku eða oftar.
Þátttakendur voru spurðir um tíðni ofbeldis og þar kom fram að 25 prósent kvenna upplifði líkamlegt ofbeldi í hverri viku eða oftar. 49 prósent upplifðu fjárhagsleg ofbeldi í hverri viku eða oftar og 38 prósent kynferðislegt ofbeldi í hverri viku eða oftar.
Þegar hegðun ofbeldismannanna er skoðuð kemur í ljós að þeir eru svo gott sem allir eins. Þeir saka makann um framhjáhald, vilja alltaf vita hvar þær eru, reyna að einangra þær frá fjölskyldu og vinum og að sjálfssögðu eru allar fyrrverandi snargeðveikar að þeirra mati.
Að sjálfssögðu er hegðun mannanna ekki svona í upphafi sambandsins enda falla greinilega margar konur fyrir ofbeldismönnum. Vanalega byrja þeir á aðfinnslum og gagnrýni og svo vindur það smátt og smátt upp á sig. Sumar túlka afbrýðissemina sem ást til að byrja með en auðvitað renna á þær tvær grímur eftir því sem tíminn líður. Stundum er það bara of seint því niðurbrotið er orðið svo mikið að þær eiga erfitt með að fara.
Behind closed doors
Um daginn horfði ég á breska heimildarmynd á Netflix. Þar fær áhorfandinn að fylgjast með atburðarrásinni, allt frá því að konan kemur á kvennaathvarf, leggur fram kæru, bíður dóms og nær að lokum að slíta sambandinu við ofbeldismanninn. Þetta eru þrjár ólíkar konur og ofbeldið er algjörlega viðbjóðslegt. Konurnar eru allar ótrúlega heiðarlegar með tilfinningar sínar og tvær viðurkenna hvernig þær virðast tilfinningalega háðar þessum mönnum. Kveðast meira að segja elska þá þrátt fyrir linnulaust ofbeldið.
Hér er stikla úr myndinni og þú getur séð hana hér í fullri lengd á Youtube líka.
Að lokum langar mig að tengja við færslu sem ég skrifaði hér á Pjattið fyrir nokkrum árum. Mig langar að hvetja ykkur til að deila henni svo að sem flestir nái að átta sig á þessum einkennum og reyna að koma sér út.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.