Það var svo margt ótrúlega frábært sem gerðist á síðasta ári. Mér finnst samstaða okkar standa einna helst upp úr og þá aðallega kvennasamstaðan.
Það var samstaða á beautytips, samstaða um #freethenipple, samstaða um að tekið yrði fastar á kynferðisbrotamálum, að fleiri innflytjendur og flóttamenn mættu hingað flytja og margt fleira. Það var góð samstaða hjá okkur.
Sundrung hefur aftur á móti verið mjög áberandi hjá Íslendingum árin eftir hrun. Fólk að skipta sér upp í litlar fylkingar, margir reiðir (skiljanlega) en líka dómharðir og jafnvel grimmir í garð þeirra sem eru ekki í „rétta flokknum” eða með „réttu skoðanirnar”. Fjölskylduboð gátu jafnvel orðið tens og oft var uppsprettan eitthvað sem var sagt á Facebook. Jafnvel bara ummæli við frétt.
Vigdís var góður forseti, af því að…
Umræðan á netinu gerir það oft að verkum að það er auðvelt að særa aðra. Það er of auðvelt að sitja við lyklaborðið heima hjá sér og segja eitthvað hræðilega ljótt við eða um þá sem maður er ósammála. Það borgar sig samt að sleppa því.
Sigrún Þöll heitin, vinkona mín og pistlahöfundur hér á Pjattinu, lagði mikla áherslu á að láta fordómana eiga sig og um það skrifaði hún nokkuð marga pistla. Meðal annars þennan hér sem heitir einfaldlega Verum góð við hvort annað en þar segir hún:
Við höfum öll rétt á að hafa okkar skoðanir á allskonar hlutum, hvort okkur þykir rós fallegri en lilja, erum með eða á móti virkjunum, trúum á Jesú eða Buddah en svona á seinni árum hefur mér fundist orðatiltækið “aðgát skal höfð í nærveru sálar” megi eiga betur við þegar við lýsum tilfinningum okkar gagnvart öðru fólki.
Að dæma annað fólk eykur einmitt á sundrungu og svona lítil þjóð eins og okkar (í alvöru… alveg ofsalega, ofsalega lítil og fámenn þjóð) hún má bara ekki við þessu.
Það tekur svo mikið lengri tíma að koma góðu til leiðar ef fólk er endalaust að dæma hvort annað af fullri hörku fyrir það sem það gerir eða gerir ekki, segir eða segir ekki.
Það er svo margt frábært hægt að gera hérna á Íslandi. Það er svo mikið hugvit, svo falleg náttúra, sterk saga, góð menntun… það er svo margt æðislegt og frábært hér á okkar fámennu en víðfemu og fallegu eyju.
Góð fótboltalið ná árangri með samstöðu. Vigdís Finnbogadóttir þótti góður forseti af því hún var svo dugleg að stappa í okkur stálinu, auka sjálfstraustið, benda á það sem var og er gott hérna. Hún var góður liðsforingi. Við urðum líka að sterku liði undir hennar hvetjandi leiðsögn.
Reyndar fórum við kannski aðeins yfir strikið með því að halda að við værum betri en aðrir og það fór eins og það fór, dramb er falli næst, – en of mikið sjálfstraust er sannarlega betra en of lítið eða ekkert sjálfstraust. Flottast er samt fólkið sem ber með sér sjálfstraust og auðmýkt í fullkomnu jafnvægi. Þá ertu eins og samúræi. Reynslan á að hafa kennt okkur að sýna meiri auðmýkt.
Gætum að því sem við segjum og skrifum
Til að bæta samstöðuna er gott að setja sér bara eitt lítið áramótaheiti sem gæti þó reynst ansi stórt þegar áhrifin koma í ljós. Það er að passa hvað við segjum á netinu. Passa hvernig við svörum öðru fólki og hvað við segjum um aðra. Vanda okkur.
Ekkert okkar er alveg saklaust þegar kemur að þessu. Ég er það ekki og eflaust ekki þú heldur en ný ár eru til að setja sér nýjar stefnur.
Sigrún Þöll skrifaði líka þennan pistil um hvernig kenna má börnum sínum góða siði í samskiptaheimum internetsins. Þar segir meðal annars:
Hafðu stjórn á skapi þínu og tilfinningum, ekki láta plata þig út í umræðu sem er ekki málefnanleg.
Sumt fólk fær einhversskonar fróun á því að æsa annað fólk upp tilfinningalega. Varpa sprengjum á spjallþræði, eða segja særandi hluti við það á bloggi eða t.d. Facebook.
Kenndu barninu þínu að taka ekki þátt í rifrildum á Netinu. Sá sem espir þig upp er ef til vill eingöngu að leita eftir athygli, sama hvort hún er neikvæð eða jákvæð. Ef einhver kemur með neikvæða athugsemd á spjallvef, bloggi eða hvar sem er, er besta leiðin að hunsa viðkomandi.
Auðvitað eigum við ekki að gera annað en það sem við segjum börnum okkar að gera þegar kemur að samskiptum.
Í minningu Sigrúnar, sem var ein gáfaðasta, fallegasta og ljúfasta kona sem ég hef kynnst, langar mig að hvetja okkur til að fara að þessum ráðum hennar og kenna börnum okkar það sama.
Verum góð við hvort annað á nýju ári. Pössum það sem við segjum og skrifum á netinu. Stöndum saman sem lítil og málglöð þjóð en verum jákvæð og hundsum óargardýrin í stað þess að koma þeim í stuð. Ég gæti skrifað mikið meira um þetta en það nennnir enginn að lesa langar greinar á netinu svo ég segi bara…
Áfram 2016! Áfram Ísland! Áfram ég! Áfram þú! Áfram, samstaða, pepp, kærleikur, vinátta og gleði!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.