Flest eigum við leið gegnum Selfoss á sumrin en það er um að gera að staldra við, rölta Eyrarveginn og kíkja á Nytjamarkaðinn en þar er til sölu allt milli himins og jarðar. Nytjamarkaðurinn á Selfossi minnir á Góða hirðinn í Reykjavík.
Þar fást hlutir sem aðrir hafa losað sig við þegar verið er að taka til í bílskúrnum eða geymslunni. Nytjamarkaðurinn þiggur allt sem þú ert hætt að nota – þetta er í raun fín endurvinnsla og er þá sama hvort um húsgögn, skrautmuni, nytjavörur, bækur eða föt er að ræða.
Sumarbústaðaeigendur hafa verið duglegir að kíkja í heimsókn og kaupa t.d. gamlar myndbandsspólur og myndbandstæki sem hafa verið vinsæl í bústaðinn: svefnpokar, pottar, vöfflujárn og annað sem til fellur og sumir jafnvel koma og gefa videóspólurnar sem búið er að horfa á og kaupa nýjar til að taka með og horfa á í bústaðnum.
Foreldrar eru afar þakklátir fyrir nytjamarkaðinn því þar er hægt að versla fallegan barnafatnað fyrir lítinn pening. Ég sá t.d fínan kerrugalla á aðeins 500 kr. barnaúlpur á 300-900 kr, og ég keypti flotta spiderman húfu á guttann minn á aðeins 200 kr.
Verðin eru ótrúlega lág, og allur ágóði rennur til hjálparstarfa. Mæli með því að þú stoppir þarna við næst þegar farið er í gegnum Selfoss.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.