Nýjasta snilldin á mínu heimili eru reiðhjól og barnastóll sem við vorum sammála að væri tilvalin viðbót!
Hjól geta verið frábær kaup útaf svo mörgum ástæðum.
Mín ástæða var sú að ég vil frekar vera úti að hreyfa mig heldur en inni en þó þarf að taka fram að ég bý á Spáni þar sem sólin skín töluvert meira en á Íslandi.
Ég elska hjól vegna þess að þú kemst svo langt á svo stuttum tíma, um leið ertu að hreyfa þig og getur séð svo margt í umhverfinu á meðan þú hjólar.
Einnig er ómögulegt að fá bílastæði hérna í bænum – og þar með gerir hjólið líf mitt töluvert auðveldara.
Flestir kunna að hjóla og það er fljótt að rifjast upp ef þetta hefur gleymst. Að hjóla kemur manni í form þó gott sé að lyfta líka. Eins og kom fram í annarri grein hér á pjattinu þá eyðir 23 mínútna rólegur hjólatúr 100 hitaeiningum sem er jafn mikið og 24 mínútur í Pilates tíma.
Það eru margar augljósar ástæður fyrir að eiga hjól. Flestum finnst gaman að hjóla, það getur sparað þér pening í bensín, það er umhverfisvænt, það er gott fyrir heilsuna og þú getur kvatt öll stæða- og umferðateppuvandræði.
Prófaðu að hugsa til baka til tímans þegar þú varst ung, frjáls, ábyrgðarlaus að hjóla á hjólinu þínu: Þegar ég fer á hjólið þá líður mér að vissu leiti eins og ég komist aftur til þessa skemmtilega tíma, sem er frekar frábær leið til að komast í form! Ég er nýgræðingur sem áhugakona um hjól og hlakka til að læra meira.
6 ástæður til að hjóla
- Einstaklingar sem byrja að hjóla í vinnuna missa að meðaltali 5,8 kg á fyrsta árinu
2. Þegar þú hjólar eða stundar aðra líkamsrækt þá eykst endorfínframleiðsla líkamans en endorfínið hefur verkjastillandi áhrif og eykur vellíðan
3. Hægt er að leggja 20 hjólum í eitt bílastæði
4. Ef þú hjólar í vinnuna þá er líklegra að þú þolir betur streitu í vinnunni og skilar af þér meiri vinnu
5. Það kostar tuttugu sinnum minna að halda hjólinu sínu við heldur en bílnum
6. Þú lifir (næstum) að eilífu ef þú hjólar – allavega lengur en ef þú hreyfir þig ekki því að æfingin og öll hreyfing eykur virkni ónæmiskerfisins.
Ég ætla reyndar ekki að leggja bílnum alveg en hjólið mun án efa vera mikið notað hér á Spáni enda vekur það mikla lukku hjá okkur öllum!
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.