Við vinkonurnar sátum á kaffihúsi í mekka tískuborgarinnar við Signubakka í sumar þegar hugmyndin kom til okkar. Ég sötraði á kaffinu mínu og sagði; “Gulla, eigum við ekki bara að halda ógleymanlegan nýársfagnað á Borginni?”
“Jú – frábært,” sagði Gulla MáMíMó eins og skot – og þannig hófst ævintýrið: Sambland af spennu og yndislegu brjálæði! Þarna í sólinni í París mótuðum við hugmyndina:
Færum Hótel Borg Borg og Gyllta salinn í partíklæðnað og gefum skvísum bæjarins færi á að draga fram flottu kjólana. Sömuleiðis herrnunum sjéns á að spóka sig í smóking og fínum jakkafötum. Það er jú ekki bara hægt að geyma fötin inn í skáp alltaf, non?
Gulla vildi hafa allt geimið nýja upplifun fyrir sjón, lykt og bragðlaukana. Borgin er klassíker sem allir þekkja en dagskráin átti að vera fersk upplifun fyrir gesti. Til dæmis datt henni í hug að fá þrjá litla trommustráka til að leika lög fyrir utan Borgina þegar gestirnir streymdu að.. og við ákváðum að bjóða dömum upp á förðun frá MAC fyrir veisluna. Síðan var hannaður fimm rétta matseðill með martreiðslumeista Silfurs og auðvitað þurftum við að hafa fordrykkinn öðruvísi líka, nema hvað: Já – dömulegur og bleikur Cosmo og síðan herralegur Absolut Vodka með tonik. Úlall….a.
Aldrei hefði mig síðan grunað að litla pempían (ég sem hef lítið vit á öðru en ‘píkupoppi’) ætti eftir að vera næturgestur á öllum tónlistarbúllum bæjarins til að leita að ferskustu hljómsveitinni til að leika fyrir gestina en það varð hinsvegar raunin.
Eftir mikið næturbrölt á búllunum duttum við niður á 13 manna stórsveit, Orphic Oxtra… og í fyrsta skipti sem ég heyrði þau spila bara vissi ég að þetta var bandið – nokkuð til óþekkt en brilljíant sound og gleði.
Til að krydda partíið örlítið dobbluðum við eina stjörnu til að synja með okkur um kvöldið, Sigríði Thorlacius í Hjaltalín sem syngur svo vel að hjartað mitt syngur með og allur kroppurinn líka. Einhvern veginnn spannst það síðan þannig að við fengum umboðsmann hljómsveitarinnar Hauk Sveins sem elskar Soul og Motown til að halda uppi næturgleðinni á Skuggabarnum með þessari þekktu tónlist… miklu miklu seinna um nóttina og djamma liðið upp.
Síðan fengum við ungan og flottan leikara Hilmar Guðjónsson til að sjá um veislustjórnina.. hann var nógu djarfur og töff til að taka þetta að sér með okkur dívunum.
Svona er það þegar tvær góðar vinkonur fá sér kaffibolla á sólríkum haustdegi í París. Það endar með alsherjar nýársfagnaði á fegursta stað Reykjavíkur, Hótel Borg þar sem hjartað slær alltaf örlítð örar. Sérstaklega núna þegar nær dregur.
Við eigum nú nokkur borð eftir þegar tveir dagar eru í nýárskvöld. Þú getur farið á Facebook síðu viðburðarins og nálgast þá í gegnum mig eða Gullu 🙂
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.