Frá því að ég lærði að lesa þá gerði ég lítið annað. Ég gleypti í mig allt það efni sem ég komst í, hvort sem það var á bókasafninu eða í hinum fjölmörgu bókahillum heima hjá mér.
Ég las á meðan ég borðaði morgunmat, á meðan ég beið eftir að tímarnir hæfust, ég las í frímínútunum. Ég gerði fjölmargar tilraunir til þess að lesa á meðan ég gekk heim úr skólanum, án þess að labba á ljósastaur.
Ef ekkert annað var í boði las ég aftan á mjólkurfernur og Cheerios-pakkann. Sama um hvaða bók var að ræða þá gat ég alltaf týnt mér í söguþræðinum. Ég neitaði að gefast upp á jafnvel hinum allra leiðinlegustu því ég varð að vita hvernig þær enduðu, alveg eins og hinar.
Sumar las ég aftur og aftur og aftur… og aftur. Ég grét og ég hló og ég engdist um af skelfingu. Endrum og eins uppgötvaði ég bækur sem voru öðruvísi. Stórbrotnar. Sem virtust vera skrifaðar beint til mín.
Ég get svarið að lífið hreinlega breyttist þegar ég las Hroka og hleypidóma í fyrsta sinn, líkt og nýr skilningur hefði opnast fyrir mér, jafnvel eins og ég hefði fundið lítið brot af sjálfri mér sem ég hafði týnt einhvern tímann á leiðinni, einhvern tímann fyrir óralöngu. Áður en ég varð meðvituð um sjálfa mig.
Eftir því sem ég varð eldri varð hins vegar erfiðara að uppgötva slíkar gersemar. Eins og einhvert naïveté eða sakleysi hefði horfið mér sjónum.
Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en núna hversu mikið ég hef saknað þeirrar tilfinningar að „finna“ mig í handriti skrifuðu af ókunnugri manneskju, fjarlægðri mér úr tíma.
Þangað til núna. Þangað til ég tók upp eina af þeim milljón bókum sem ég hafði hugsað mér að lesa einhvern daginn.
Þangað til ég byrjaði að lesa Walden og fann sálufélaga minn, hann Henry David Thoreau.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.