Iris Apfel man sannarlega tímana tvenna í tískuheiminum. Þessi New York dama er dáð og dýrkuð af forystufólki í tískuheiminum en hún hefur aldeilis skoðanir og liggur ekki á þeim.
Iris talar um árin upp úr 1950 sem mikið dásemdartímabil: „Þá litu allir vel út og voru fallegir.“
Vill láta banna þröngar gallabuxur yfir stærð 10
Hún er hinsvegar ekki á því að nútímafólk hafi af miklu að státa þegar kemur að smekkvísi og lekkerheitum:
„Þegar ég geng niður fimmta breiðstræti langar mig til að gubba. Það virðist vera að fólk fækki fötum eftir því sem það fitnar og lítur verr út. Stuttbuxurnar og sandalarnir… svo ekki sé minnst á níðþröngar gallabuxurnar. Það ætti að banna framleiðendum að setja þessar buxur á markað í stærðum fyrir ofan 10!“ segir hún og bætir við að fyrir tíu árum hafi fólk byrjað að líta druslulega út í New York en nú sé þetta líkt og um faraldur sé að ræða.
„Þetta er frjálst land og allt það — ef þig langar að líta illa út, þá gjörðu svo vel.“
Iris var sjálf alin upp á Manhattan en mamma hennar rak og átti tískuvöruverslun frá unga aldri.
Iris hefur í gegnum árin safnað að sér allskonar munum, bæði kjólum og skarti sem hún seldi fyrir nokkrum árum á netinu.

Stjörnurnar allar eins
Hún gefur heldur ekki mikið fyrir stíl stjarnanna í dag:
„Þau líta öll eins út. Vita ekki hvað þau eiga af sér að gera. Það er eins og allir séu í sama sloppnum og á rauða dreglinum í ár voru engar með skartgripi! Jú, Helen Mirren var reyndar með mjög fallega festi um hálsinn en hún klikkaði vegna þess að hálsfestin tók alla athygli frá kjólnum. Hönnuður kjólsins hefur örugglega viljað fremja sjálfsmorð þegar hann sá þetta.“
Þú kaupir ekki stíl
Margir af þeim ríku og frægu hafa leitað ráða hjá Iris þegar kemur að tískuviti og persónulegum stíl. Hún gefur ekki mikið fyrir það.
„Ég get ekki sagt fólki hvernig það á að hafa stíl. Það er sama hvað þú átt mikið af peningum. Þú kaupir þér ekki stíl. Hann kemur frá hjartanu. Þú getur ekki reynt að vera einhver sem þú ert ekki. Það er ekki stíll yfir því. Ef einhver reynir að sannfæra þig um að kaupa eitthvað til að vera ‘stylish’ þá gengur það ekki — það er ekki þú. Fyrst þarftu að læra að þekkja sjálfa þig og það getur tekið á,“ segir þessi aldraði snillingur.
Hér eru myndir af skartgripasafni dömunnar… og hér er nýlegt viðtal við hana hjá Elle. Sjálf fæ ég ekki nóg af þessu dásamlega iconi.

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.