Einkalíf og internetið. Þetta kombó hefur verið mér ákaflega hugleikið síðustu vikurnar, enda af nægu að taka.
Vissir þú til dæmis að á Instagram getur maður skoðað hvað aðrir hafa verið að “læka”. Ég hef lítið spáð í þetta hingað til, er vanalega bara að skrolla og læka og senda eina og eina mynd áfram í einkaskilaboðum ef ég sé eitthvað sniðugt.
Í gærkvöldi fékk ég svo skilaboð: „Ég sé að þú varst að læka mynd af só end só… Ég hélt að þér þætti hann svo leiðinlegur?”… bíddu uuuu?
Hvað voru hinir að læka?
Ég varð hálf hissa að fá þessa athugasemd en mundi þá allt í einu eftir þessum fídus á Instagram sem býður manni að skoða hvað aðrir hafa verið að læka. Ég kíkti.
Flest var heldur tíðindalaust, bollakökur, börn og kokteilar, – en svo varð þetta skyndilega mjög vandræðalegt. Eins og ég væri byrjuð að hnýsast allt of langt inn í einkalíf annara. Jú. Að minnsta kosti tveir menn (af following listanum mínum) voru gríðarlega duglegir að læka glyðrumyndir síðustu daga. Giftir og prúðir menn.
Pínlegt.
Þeir auðvitað meðal þúsunda annara karla sem læka glyðrurnar. Héldu pottþétt að þeirra læk myndu bara týnast í þúsundunum. Gera sér eflaust enga grein fyrir því að allir sem þeir eru með á Instagram geta fylgst með því sem þeir eru að læka.
Ekki það að maður eigi ekki að vera kynfrjáls í sinni gagnkynheigð. Frelsið er yndislegt. Þetta virkaði bara aðeins of persónulegt svona í skrollinu. Sumt af þessu voru svona furðulegar “fetish” myndir. Mjög skrítnar.
Ég stórefast um að þeir vilji að allir viti þetta. Allir sem þeir eru með á Instagram. Kannski mamma, synir, dætur…? Ha? Æi. Hættiðussu.
Um leið og það er búið og gert…
Þetta er ágætt dæmi um það hvað flestir venjulegir Jóar og Júllur eru glórulaus þegar kemur að einkalífi og internetinu.
Staðreyndin er þessi: Það sem við skoðum, skrifum og gerum á netinu… það er umsvifalaust farið úr okkar höndum.
Auðvitað þýðir þetta ekki að maður eigi að halda einkalífinu alfarið af netinu. Það er ekki hægt. Við erum öll alltaf að senda skilaboð fram og til baka. Slúðra spá og spekúlera. Skoða hitt og þetta. Spurningin er bara hvað, hvar og hvernig og hversu dugleg erum við að passa okkur?
Muniði þegar SMS-in sem höfðu verið send í gegnum Vodafone vefinn fóru í umferð? Fólk var að lesa þetta og hneykslast og hafa gaman af. Meiri hryllingurinn. Og aumingjans lúðarnir sem héldu í alvörunni að Ashley Madison væri sérlegur vefur fyrir konur í framhjáhaldshugleiðingum. Ég held að svona lagað geti verið bara fyndið þangað til að það kemur að manni sjálfum.
En hvað erum við nákvæmlega að gera? Og hvernig? Og ef við erum að bralla eitthvað, hvað gerum við þá til að koma í veg fyrir að aðrir sjái það? Sumt er t.d. ekkert að skammast sín fyrir, eins og klósettferðir. Maður vill samt hafa lokað.
Á forsíðu Moggans!
Ég man eftir skemmtilegum uppeldisfrasa sem var eitthvað á þá vegu að ef maður vildi ekki sjá það á forsíðu Moggans þá ætti maður ekki að gera það eða láta hafa það eftir sér.
Þetta gæti verið ágætis þumalputtaregla þegar kemur að samskiptum á netinu. Því allt sem maður segir og gerir á netinu – Það er og verður á netinu.
Frelsi eða ekki?
Við ættum samt ekkert að vera eitthvað hrikalega paranoid. Auðvitað er og verður alltaf til leiðinlegt fólk sem leitar að leiðindum þar sem engin eru.
Fólk sem hungrar í að dæma aðra (til að geta upphafið sjálft sig) og leitar að brestum allstaðar. Nettröll og dólgar. Ömurlegur þjóðflokkur. Eins og og skáldið sagði: „Sá sem vill sjá draug, hann sér draug.” Við þurfum bara að leiða þær týpur hjá okkur. Enginn er allra hvort sem er.
Það er mikið mikilvægara að fá að vera maður sjálfur en að vera endalaust að stressa sig á því að einhver húsmóðir úr Vesturbæ eða gugga í Garðabæ sé að dæma okkur. En hvar drögum við línuna? Hvað gerir maður? Hvað mega aðrir sjá og hvað ekki? Og hver má sjá hvað?
10 netráð sem gott er að hafa á bak við eyrað
Ég er búin að blogga síðan 2002 og hef þar af leiðandi sagt milljón sögur af sjálfri mér á netinu. Básúnað pólitískar skoðanir og svona. Reynslan hefur kennt mér að styðjast við ákveðnar reglur í sambandi við almenna netnotkun, blogg, Facebook og allt hitt sem krefst netsambands svo að maður geti verið með. Hér eru þær… svona í fljótu bragði.
1. FLOKKA OG SKILA
Ég er með tvo hópa á Facebook. a) Vini og kunningja b) Bara vini (ekki kunningja). Vinir + kunningjar er í raun það sama og opinber (eða public) status. Það mega svo gott sem allir sjá það sem er stillt á þann hóp.
2. EKKI ERU ALLIR VIÐHLÆJENDUR…
Bara vinir fá hinsvegar að sjá grín sem ekki er hægt að skilja nema með því að þekkjast persónulega, myndir úr ferðalögum af fjölskyldu og vinum og sitthvað fleira í þeim dúr.
3. MÍN SKOÐUN ER SÚ…!
Það er mikill hópþrýstingur á Facebook þegar kemur að skoðunum. Svo mikill að fólk gefst oft upp og segir ekki það sem því raunverulega finnst. Svona til að falla áfram í kramið. Mér finnst svakalega mikilvægt að standa með sjálfri mér í skoðunum, hvort sem þær eru viðurkenndar þá stundina eða ekki.
Auðvitað getur maður stundum skipt um skoðun og allt það, – en að mínu mati þá á maður ekki að opinbera skoðanir nema maður sé búin að ígrunda þær vel og treysti sér til að ræða þær fram og til baka. Netið er þess eðlis.
4. HULINSHJÁLMUR
Notaðu Incognito stillingar í Safari og Chrome ef þú ert að skoða eitthvað sem þú vilt ekki láta aðra sjá. Til dæmis ef þú ert í lánaðri tölvu að skoða Facebook, email eða annað persónulegt. Einkamál geta líka átt við um margt. Til dæmis gæti maður verið að undirbúa ferð sem á að koma á óvart. Skoða gjafir eða þessháttar. Þá viltu ekki að næsta manneskja sem opnar vafrann sjái hvað þú varst að gera. Incognito gluggann finnur þú með því að fara í FILE og velja þar New Incognito Window. Þá ertu komin með hulinshjálm og getur vafrað um ósýnileg að vild. Mundu bara að skrá þig út og loka glugganum þegar þú ert búin 😉
5. megas_og_bubbi@hotmail.com
Ég skrái aldrei raunveruleg netföng eða nafn þegar ég logga mig inn á ókeypis Wi-Fi í útlöndum. Skálda bara eitthvað bull. Hitt er of mikil áhætta og of mikið spam í pósthólfið.
6. ÞIÐ GETIÐ VERIÐ ÚTI
Þetta er reyndar pínu fyrir lengra komna en ég mæli með nota VPN þjónustu. Hún skiptir sérstaklega máli þegar maður er á ferðalögum og þegar maður er með kreditkortanúmer eða bankaupplýsingar skráðar inn í tölvuna sína. VPN gerir þér líka kleift að sjá USA Netflix ofl. (bara ekki iPad og iPhone) – VPN er meðal annars einskonar varnarskjöldur sem gerir hökkurum (og bara öllum) erfiðara fyrir að komast inn í tæki hjá þér. Eða hverjum sem er sem getur loggað sig inn á sama net og þú ert að nota og það er mikið einfaldara en flestir halda.
7. EF AMMA ÞÍN MÁ EKKI SJÁ ÞETTA
Ekki gera neittopinberlega á samfélagsmiðlum sem mætti ekki segja frá annarsstaðar. Til dæmis í fjölmiðlum eða afmælum.
8. SEGJA ÞAÐ SEM MAÐUR MEINAR
Ekki segja neitt í FB grúbbum, kommenta við fréttir eða segja eitthvað í statusum sem þú vilt alls ekki að aðrir lesi eða hafi eftir þér. Ég blogga til dæmis ekki um neitt sem ég vil ekki að sé lesið enda væri það geðveik tímasóun. Stundum ritskoða ég mig þó og breyti eftir á – Það má.
9. SÓPAÐU UPP EFTIR ÞIG
Hreinsaðu reglulega cookies, cache og history í öllum vöfrum. Farðu yfir lykilorð sem eru vistuð. Skráðu þig út úr tækjum. Notaðu lykilorð allstaðar og breyttu þeim reglulega. Lokaðu öppum og hentu þeim sem þú notar ekki. Passaðu “privacy” stillingar á þeim líka.
10. PASSA SIG Á ÖPPUM!
Ekki nota Facebook til að logga þig inn á random öpp. Notaðu frekar Google, ef það er í boði, og þá helst plat-aðgang.
Vissir þú til dæmis að um leið og þú bætir Pókémon Go inn í símann hjá þér í gegnum Facebook þá ertu búin að gefa aðgang að öllum upplýsingum um þig, öllum myndum, hvar þú ert stödd, kontaktlista, öllu? Allt sem þú gerir þar er rekjanlegt. True story. Hlustið bara hér.
…
Já krakkar mínir. Þetta Sæberspeis sem við lifum í getur verið ansi undarlegur heimur. Við erum hérna ótal tíma á dag stundum, eigum okkur hálfgerða hliðarveröld. Það eru raunheimar, draumheimar og svo þessir nýju rafheimar.
Við viljum ekki hafa fólk á glugganum heima hjá okkur. Heldur viljum við ekki hafa fólk að gramsa í okkar rafrænu skúffum.
Það er um að gera að setja sér reglur í þessum efnum. Vaða ekki um í villu og svima. Ég skora á þig að setja þér þínar eigin reglur um samskipti og hegðun á netinu. Því fyrr sem við byrjum því betra. Og leggjum börnum okkar reglurnar í þessu líka því þau eru rétt að byrja. Umræða um þetta væri vel þegin á FB síðu Pjattsins. Skjáumst þar! 🙂
Áhugassöm?
Hér eru frekari pælingar um mannasiði á Facebook.
Hér eru net reglur sem gott er að brýna fyrir börnum (skrifað af Sigrúnu Þöll 2012).
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.