Í gærkvöldi horfðum við Edda dóttir mín á síðasta þáttin í fyrstu seríunni um hina óbrjótanlegu Kimmy Schmidt eða The Unbreakable Kimmy Schmidt á Netflix.
Þættirnir fjalla um hana Kimmy sem flytur til Manhattan eftir að hafa verið lokuð í neðanjarðarbyrgi af sturluðum presti í 15 ár.
Það fyndna í þessu er að Kimmy fór niður í byrgið árið 1998, þegar hún var 12 ára, og þegar hún kemur upp aftur er hún enn með sama fatasmekkin og sömu hegðun og 12 ára stelpa.
Stórfurðuleg semsagt en gerir sitt allra besta til að fitta inn.
Kimmy finnur strax húsnæði inni á hinum ofsalega hommalega Titus Andromedus sem er snilldarlega leikinn af nafna sínum Titus Burgess.
Fáránlega fyndin týpa sem klúðrar gersamlega öllu sem hann kemur nálægt.
Titus kom líka til New York að freista gæfunnar. Hann langaði að taka þátt í söngleikjum á Broadway en gafst upp og tók harkið með því að standa í Iron Man búningi á Time Square og fá pening fyrir að pósa. Kimmy sér svo um að stappa í hann stálinu og peppa hann upp í að láta drauma sína rætast. (Hér gerði ég myndablogg um Time Square í NYC og einn þessara búninga manna.)
Strax í fyrsta þætti finnur Kimmy Schmidt vinnu sem heimilishjálp hjá hinni fögru, miðaldra Jaqueline, sem sinnir ekki öðru starfi en að vera eiginkona milljarðamæringsins sem hún er gift.
Þau þrjú, ásamt Lillian Kaushtupper, alkóhólíseraða leigusala Kimmy og Titusar, mynda svo ægilega skemmtilega karaktera í þessari grín/háðsádeilu á nútímalífið.
Það er ekki alltaf sem ég get horft á skemmtilega þætti með tæplega 11 ára dóttur minni sem við höfum báðar jafn gaman af en það var algjörlega tilfellið með The Unbreakable Kimmy Smith.
Við skellihlógum að þessu rugli enda frábærar og fyndnar týpur í þessum þáttum sem fá heil 8 af 10 á IMDB.
Ég er bara hress og gef þessum þáttum fjórar stjörnur eins og flestir.
[usr 4]
Það er óhætt að mæla með hinni óbrjótanlegu Kimmy Schmidt fyrir alla, en kannski aðallega mæðgur (börn frá 11-20 ára), konur og homma með húmor fyrir drottningum.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=mNKEKlXY3Z4[/youtube]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.