Í gærkvöldi kláraði ég að horfa á seinni seríuna í The Fall með Gillian Anderson og hinum verðandi stórleikara Jamie Dornan.
Þetta eru verulega góðir þættir að mínu mati og mannskapurinn á IMDB er sammála, gefur henni 8.2.
Í þáttunum segir af rannsóknarlögreglukonunni Stellu Gibson og raðmorðingjanum Paul Spector. Alveg frá fyrsta þætti leikur enginn vafi á hver er morðinginn og sambandið á milli lögreglunkonunnar og morðingans er mjög sérstakt.
Reyndar eru þetta frekar sérstakir þættir. Fremur hægir en mikið er lagt upp úr persónusköpun og sálrænni spennu. Bæði Gillian og Dornan frábær í sínum hlutverkum og sérlega heillandi karakterar.
Stella Gibson kemur á óvart með sinni persónu. Hún er feministi, grjóthörð, fáguð og flott en pínu óábyrg í kynferðismálum. Rannsóknarlöggur verða alltaf að hafa veikleika. Stella er veik fyrir kynlífi meðan Harry Hole elskar brennivín.
Paul Spector er líka enganveginn sá fjöldamorðingi sem við eigum að venjast. Frekar heillandi og sexý strákur sem er líka góður pabbi og eiginmaður. Svona náungi sem þú myndir alveg horfa á sekúndu lengur ef þú sæir hann á kaffihúsi.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=dyFrBC1rAcg[/youtube]
Það er væntanlega vegna þessa sem hann var valin til að leika hlutverk hins alræmda karakters Christian Grey úr 50 shades en þeir Paul Spector eiga það þó sameiginlegt að hafa gaman af því að binda konur og vera með hin og þessi fetish.
Ef þú hefur aðgang að Netflix og ert ekki búin að horfa á þessa þætti þá skaltu byrja bara um helgina. Hver þáttur er um klukkutíma langur nema lokaþátturinn sem er í einn og hálfan. Taktu líka eftir fötunum sem karakterinn Stella Gibson klæðist, og hárinu, og förðuninni. Þvílík klassapía.
Eins og sönnu nördi sæmir er ég búin að gúggla hvort von sé á þriðju þáttaröð og ef marka má Gillian þá er vel tekið í það þó aðeins hafi til staðið að framleiða tvær þáttaraðir í upphafi. Persónulega vona ég að sú þriðja komi því ég held að heimurinn þurfi að sjá meira af konum eins Stellu Gibson.
Góða skemmtun!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.