NETFLIX: Stephen King elskar Stranger Things – sem fær 9.1 á IMDB

NETFLIX: Stephen King elskar Stranger Things – sem fær 9.1 á IMDB

Það voru allir og ömmur þeirra búnir að tala um Stranger Things þegar ég skellti mér í sófamaraþon síðasta sunnudag.

Það þarf ekki að ræða þetta neitt.

Sjálfur Stephen King elskar líka þættina og gefur þeim A+ , enda eru þessir sjónvarpsþættir sjúklega gott rímix úr þeim sögum hann hefur skrifað í gegnum tíðina. Meira að segja upphafsstafir þáttanna vísa beint í kónginn.

Sjáðu bara leturgerðina og uppsetningu! Blasir við.

Aðrar víddir og ofurkraftar

Þættirnir, sem eru átta talsins, segja frá mjög svo dularfullu hvarfi ungs drengs yfir í aðra vídd (sem kallast The Upside Down) leitinni að honum og svo öllu þessu mannlega eins og fyrstu ástinni, sorg, einelti og sitthvoru fleira.

Aðalpersónur sögunnar eru nokkuð margar en þær helstu eru þrír tólf eða þrettán ára strákar og sirka jafngömul, óskaplega fámál stelpa, með kyngimagnaða ofurkrafta. Sú heitir einfaldlega Eleven, eða 11, enda alin upp á rannsóknarstofum.

Þetta rímar stórkostlega vel við ótal sögur Stephen King. Hann hefur alltaf elskað að skrifa um hálfstálpaða krakka sem búa í fremur tíðindalausum smábæjum í Bandaríkjunum, oftast á austurströndinni, Maine, Conneticut eða þar í kring, einmitt þar sem King sjálfur á heima.

Stranger Things gerist í Indiana, sirka 1983, en Stephen King var einmitt á hátindi vinsældanna á þeim árum sem við köllum oftast eitís árin í daglegu tali.

stranger

Mjög mikið er lagt í nostalgíska upprifjun á þessu tímabili, allt frá tónlist yfir í föt og ekki síst tæknina sem hefur breyst alveg svakalega á þessum rúmlega 30 árum. Það er unun að horfa á þessa upprifjun, í raun bara alveg meiriháttar skemmtilegt ferðalag.

Þættirnir eru bannaðir innan sextán en sjálfri fannst mér þeir ekki svo hræðilegir og ekki dóttur minni heldur. Þeir eru frábær skemmtun fyrir alla, tólf ára og eldri, enda aðalpersónurnar krakkar líka. Bara lækka hljóðið ef krípstigið verður of mikið. Það er bara svo gaman þegar allir vilja horfa saman.

Ef þú ert búin að sjá þættina og bíður ofsalega spennt eftir næstu þáttaröð (sem verður sýnd á næsta ári) þá skaltu stytta þér stundir og lesa nokkrar Stephen King bækur í millitíðinni. Nú eða horfa á myndirnar…

‘The Body’ (partur af sagnaröðinni Different Seasons, 1982)

The Body er stutt skáldsaga (novella) um fjóra tólf ára stráka sem skella sér í einskonar Lord of the Rings ferð, leita að líki og læra sitthvað á leiðinni. Sagan fjallar um vináttu og sitthvað sem tengist því að vaxa úr grasi (coming of age). Seinna meir var þessi saga færð yfir í myndina Stand By Me sem naut gríðarlegra vinsælda örfáum árum síðar.

Firestarter (1980)

Það þarf auðvitað ekkert að ræða þetta. Eleven er sú sama nema að þessi litla stelpa getur kveikt eld hvar sem er. Dularfullir vondir menn í jakkafötum elta hana og vilja nýta kraftana fyrir herinn en hún vill bara vera með vinum sínum og vera ‘venjuleg’.

Carrie (1976)

Önnur smábæjarstelpa með yfirnáttúrulega krafta sem gera það að verkum að hlutir hreyfast til. Alveg eins og Eleven.

Svo má líka nefna Pet Cemetary, The Shining, Misery, Salems Lot, Dead Zone, It og margar, margar fleiri.

Hvet þig eindregið til að demba þér af lífi og sál í Stephen King. Hann hefur verið einn uppáhalds rithöfundurinn minn í 100 ár enda afburða góður sagnamaður og meistari í að búa til spennu.

Bækurnar eru auðvitað alltaf betri en myndirnar og þær eru af ýmsum toga, bæði hryllingssögur en líka dramatískar og fallegar sögur eins og Græna Mílan eða The Shawshank Redemption (man ekki þýðinguna á titlinum).

Eftir þessa velgengni Stranger Things má líka reikna með kombakki frá þessum snillingi, bæði í sjónvarpi, bíó og víðar svo um að gera að vera með fræðin á tæru þegar aldan skellur yfir 😉

Við erum að tala um að fólk er að gefa seríunni 9.1 á IMDB. Varla hægt að toppa það. Að lokum… hér er tíst frá kónginum. Til hvers að leyfa öðrum að eigna sér snilldina manns, þegar maður á hana skuldlaust?

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest