Þið sem sátuð stjörf yfir Brúnni, Svikamyllu, Wallander og öðru eðalefni frá nágrönnum okkar á norðurlöndum viljið alls ekki missa af sænsku þáttunum Quicksand, eða Störst av allt, á Netflix en þættirnir eru byggðir á samnefndri metsölubók Malin Persson Giolito sem kom út árið 2016 og varð metsölubók í Svíþjóð.
Það er Camilla Ahlgren, aðal handritshöfundur Brúarinnar sem vann handritið upp úr bókinni og það gefur þáttunum tvímælalaust gæðastimpil enda Brúin með betri sjónvarpsþáttum sem gerðir hafa verið.
Ekki bara „einhverjir unglingaþættir“
Edda mín sem er fimmtán ára, var nokkrum sinnum búin að segja mér að horfa á þá en ég var treg til enda hélt ég að þetta væru bara „einhverjir unglingaþættir“. En svo lét ég til leiðast og gat varla litið upp frá fyrstu mínútu.
Sagan segir frá Maju Norberg (Hanna Ardéhn) , sautján ára stelpu sem er handtekin fyrir morð sem hún mögulega framdi í skólanum sínum. Fyrsta sena í fyrsta þætti hefst á því að við sjáum blóðugt andlit hennar þar sem hún stendur í skólastofunni en vitum ekki hvað gerðist. Sannleikurinn kemur svo smátt og smátt í ljós en það er áhorfandans að geta í eyðurnar.
Átakanlegar breytingar á ungri stelpu
Í hverjum þætti er flakkað fram og til baka frá nútíð, þar sem hún undir yfirheyrslum og rifjar upp árið sem á undan er liðið. Allt frá því hún byrjaði með Sebastian og til dagsins þar sem hún stóð í blóði sínu í skólastofunni.
Við fylgjumst með breytingunum sem verða á Maju og það er bæði átakanlegt og ótrúlega grípandi. Í upphafi sögunnar er hún venjuleg framhaldsskólastelpa sem kemur frá góðri og efnaðri fjölskyldu, stendur sig vel í námi og á góðar vinkonur en eftir að hún fer í samband með jafnaldra sínum Sebastian, (Felix Sandman), sígur smátt og smátt á ógæfuhliðina.
Erfitt að hætta að hugsa um þá
Meðvirki, dópneysla unglinga, andlegt ofbeldi, nauðgun og önnur áleitin og erfið mál eru tekin fyrir í sögunni með ótrúlega sterkum hætti. Svo gripandi eru þeir að ég sjálf, og þau sem ég þekki sem hafa séð þættina, segjast ekki hafa getað hætt að hugsa um þá í marga daga á eftir, og þó viðfangsefnin séu meðal annars af þessum erfiða toga er framsetningin í takti glæpasagna og þannig helst áhorfandinn límdur við skjáinn.
Þættirnir hafa allstaðar fengið rífandi góða dóma en notendur IMDB sem almennt eru sparir á lofið gefa þeim 7.6 og allt yfir 7 er yfirleitt garanterað gæðaefni þar. Þættirnir eru framleiddir af Netflix en þetta eru fyrstu sænsku sjónvarpsþættirnir sem efnisveitan framleiðir og vonandi verða þeir fleiri, þó ekki megi búast við framhaldi af þessari sex þátta seríu.
[usr 5.5]Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.