Upp á síðkastið hef ég verið algerlega húkkt á finnskum sakamálaþáttum sem heita Bordertown. Finnarnir hafa hingað til ekki verið áberandi í framboðinu á skandinavísku krimmunum en ég sé það svo sannarlega breytast á næstunni þar sem það er hreinlega ekkert hægt að finna að þessum þáttum. Um það eru allir gagnrýnendur sammála, a.m.k af því sem ég hef fundið á netinu.
Bordertown, sem á finnsku heita Sorjonen eftir aðalpersónunni Kari Sorjonen, segja frá tveimur fjölskyldum: Mæðgunum Lenu og Katiu Laakola og snillingnum Kari Sorjonen, konu hans Pálinu og dótturinni Janínu sem er á svipuðum aldri og Katia, sirka 18-19 ára.
Jafn ávanabindandi og Broen
Ég er auðvitað algjör sökker fyrir „nordic noir“, eða svona sirka frá því ég varð algjörlega húkkt á Broen hér um árið. Ég er hreint ekki frá því að Bordertown séu jafn ávanabindandi enda aðal löggurnar, þau Kari og Lena, ævintýralega flottir karakterar. Magnaðir satt að segja.
Lena til dæmis minnir að mörgu leyti á hina frábæru Sögu Noren. Hún er rosalegur nagli en alls ekki jafn skritin og Saga. Það má hinsvegar segja að hin viðkvæmnislegi Kari sé einhversstaðar á rófinu en hann þykir mjög sérvitur. Það sem einkennir Kari er stórkostlega næmt innsæi og svo vinnuaðferðir sem byggjast á svo magnaðri minnistækni að gaurinn bókstaflega man allt.
Fjórar konur og einn karl
Mér finnst sérstaklega gaman að því að af þessum fimm aðalpersónum skuli fjórar þeirra vera konur. Tvær unglingsstepur og tvær miðaldra. Pálína fædd 71 og Lena 65. Þessar konur tala um mjög margt annað en karla (og standast þannig í Bechtel testið). Satt að segja hef ég aldrei séð eins mikla nagla á skjánum eins og þessar finnsku konur og þar lögreglukonan Lena alveg sér á parti. Algjörlega meiriháttar persónusköpun. Og samböndin á milli dætranna og foreldra þeirra eru alveg ótrúlega vel sett fram. Karaktersköpunin svo góð að ég hef sjaldan séð annað eins. Hvernig persónurnar díla við tilfinningar sínar og erfiðleika er alveg stórkostlega vel tæklað
Plottið verður mikið þéttara
Uppbygging þáttanna er líka algjör snilld. Í stað þess að hafa eitt sakamál í gangi sem gengur út alla þáttaröðina, eru tveir til þrír þættir notaðir undir hvern glæp. Þetta gerir það að verkum að plottið verður mikið þéttara og auðvitað binsar maður minna. Það er líka eiginlega nauðsynlegt af því plottið er svo þétt að maður þarf að melta það eftir á. Glæpirnir eru mis ógeðslegir. Sumt er svo horrible að maður þarf eiginlega að líta undan meðan aðrir þættir eru ekki eins grúsom og meira fókuserað á drama milli persónanna.
Karlmannlegar konur og jafnrétti kynjanna
Þar sem þetta eru finnskir þættir þarf maður auðvitað að lesa textann allann tímann og það getur verið pínu krefjandi til að byrja með en gleymist svo strax. Mér finnst líka frábært að kynnast finnum og finnskri menningu aðeins í gegn um þessa þætti. Finnar eru einhvernveginn þannig að maður hefur lítið pælt í þeim. Tungumálið þeirra er auðvitað allt öðruvísi en hin norðurlandamálin og af einhverjujm ástæðum hefur finnskt sjónvarpsefni lítið ratað á skjáinn hér heima.
Eitt af því sem mér finnst áberandi í þáttunum er hversu jöfn kynin virðast vera í Finnlandi og í smá grúski komst ég meira að segja að því að orðið hän, sem hefur verið notað í tungu þeirra í yfir fimmhundruð ár, er orð sem er notað þegar talað er um manneskju í þriðju persónu þegar ekki er vitað hvers kyns hún er. Til dæmis kennari, ökumaður, flugmaður og svo framvegis.
Þau eru líka mjög framarlega í því að hafa sniðið tungumálið að báðum kynjum og karlremba er almennt gríðarlega illa séð þar í landi. Finnar hafa engan húmor eða umburðarlyndi fyrir slíku . Svo tók ég líka eftir því að hvað konurnar eru á sinn hátt frekar „karlmannlegar“. Kannski hefur það eitthvað að gera með útlit Finna en þau hafa mjög áberandi útlitsleg sérkenni sem gera þau svolítíð ólík öðrum Norðurlandabúum. Breiðir kjálkar, há kinnbein, hátt enni blá eða ljósgrá augu og ljósara yfirbragð. Flott lið.
Í stuttu máli sagt þá eru þessir þættir algerlega ómissandi upplifun fyrir ykkur sem elskið norræna sakamálaþætti. Þeir eru á Netflix. Það er veisla framundan hjá ykkur!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.