Þetta er dálítið öðruvísi og skemmtileg tilbreyting en til þess að framkvæma svokallaðar dagblaðsneglur þarf að lakka tvær umferðir af hvítu eða kremuðu naglalakki. Það þarf svo að leyfa því að þorna alveg.
Neglurnar eru síðan lagðar í alkahólbleyti í sirka 4-5 mínútur. Ég hellti mér nú bara vænni slummu af vodka í glas og skellti puttunum þar ofan í. Það er kostur að búa einn þegar bardúsað er við þetta. Sennilega finnst ekki öllum eðlilegt að kona liggi fyrir framan sjónvarpið með neglurnar í vodkamaríneringu.
Þegar neglurnar eru orðnar vel vodkablautar er litlum bút af dagblaði klesst á þær og það svo fjarlægt rólega.
Það má auðvitað leika sér með allskonar hugmyndir og pappír. Ég er að hugsa um að prófa einhvern fallegan gjafapappír næst.
Ef vodkað verður ekki búið þar að segja.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.