Það eru svo margir möguleikar í boði þegar kemur að því að móta lögun naglanna. Sumar hafa ekki hugmynd um hvers konar form þær vilja en það er gott að hafa eitthvað til að miða við þegar valið er.
Bláa: (Square) Ferkantað form sem lengi var ráðandi í naglatísku og þá gjarnan með french línu. Nú er formið orðið aðeins einn af mörgum valkostum þegar kemur að því að velja lögun nagla.
Ferkantað form hentar vel löngum, grönnum fingrum og löngu naglastæði en ef til vill síður fyrir þær sem hafa stutta fingur og naglastæði.
Fjólubláa: (Squoval) Ferkantað-hringlaga form sem er aðeins mýkra en alveg ferkantað. Þetta form er ekki alveg jafn afgerandi og það ferkantaða og hentar því frekar þeim sem vilja ferkantað form og eru með stutt naglastæði.
Græna: (Fine square) Ferkantað en þó mjúkt form sem virðist vera eitt af því vinsælasta í dag og fremur nýtt af nálinni. Þær eru töffaralegar og ganga upp á hvernig nöglum sem er.
Rauða: (Rounded) Hringlaga form sem er eitt af þeim allra klassískustu. Neglurnar eru snyrtilegar í þessu formi og ekki of áberandi. Þetta er stíll sem alltaf virkar sama hvernig neglur og fingur eru í laginu og hvaða lengd er notuð.
Gula: (Oval) Sporöskjulaga neglur sem voru afar vinsælar í kringum 1950 og virðast hafa komið aftur nýlega og verið einskonar stökkpallur að Stiletto nöglunum sem eru enn ýktari. Þetta form er þó mun mýkra og klassískara og ef til vill ekki jafn ögrandi. Ef naglastæði er stutt er gott að hafa neglurnar ekki of stuttar ef þessi lögun verður fyrir valinu. Ákveðna lengd þarf svo að hægt sé að móta mjúku lögunina frá fingurgómi og að toppi naglarinnar. Oddmjóar neglur gera mikið fyrir stutta fingur og naglastæði.
Bleika: (Stiletto) Oddmjóar neglur sem hafa verið vinsælar upp á síðkastið. Nafnið er frá Ítalíu og er mest notað yfir támjóa pinnahælaskó. Stjörnur eins og Beoyncé, Rihanna og Lady Gaga eiga það sameiginlegt að vera framúrstefnulegar og áberandi í naglastíl og hafa allar skartað Stiletto nöglum. Stiletto neglur geta þó verið misjafnlega oddmjóar og á meðan sumar kjósa að fá sér mjúklega lagaða toppa vilja aðrar það form sem líkast er klóm. Formið á myndinni er líklega mitt á milli.
Hulda Jónsdóttir Tölgyes er 28 ára og úr Reykjavík.
Hulda hefur lokið tveimur háskólaprófum í sálfræði og stefnir ótrauð á að læra enn meira innan þess sviðs á næstu árum.
Hún er jafnframt lærður naglafræðingur úr MOOD skólanum og einn af stofnendum poppkórsins Vocal Project.
Hulda er hundafrík sem naglalakkar stundum tíkina sína!