Ég var fengin til að skrifa grein í Læknanemann, tímarit læknanema. Greinin er útlistun á einkennum lækna eftir því hvaða stjörnumerki þeir tilheyra.
Ég er nú þegar búin að birta vatnsberann, fiskinn og hrútinn..
Nautið 20. apríl – 20. maí
Nautið er læknirinn sem gengur um ganga spítalans þannig að hann vekur eftirtek allra í kring fyrir það eitt að vera fram úr hófi myndarlegur. Dr. Douglas “Doug” Ross úr ER og Dr. McDreamy úr Grey’s Anatomy eru án nokkurs vafa naut.
Þar sem rekstur af öllu tagi hentar nautinu vel og allur rekstur sem nautið kemur nálægt skilar hagnaði er líklegt að það reki sína eigin stofu.
Eitt af því sem nautið sækist mest eftir í lífinu er að fá að einbeita sér að verkefnum sínum í friði. Nautið getur líka verið pínulítið seint af stað (á það til að vera latt) en þegar það nær fókus og takti þá getur það unnið eins og jarðýta. Því myndi bráðavakt ekki henta nautinu sem vinnuumhverfi.
Læknir í nautsmerkinu mun ekki auðveldlega skipta um læknisaðferðir. Ef eitthvað hefur verið ákveðið og virkar þá er ekki breytt út af þeirri stefnu (nautið er nefninlega verulega þrjóskt og fast fyrir).
Þar sem nautið elskar peninga og lífsnautnir eru góðar líkur á að það stundi lækningar sem gefa vel í aðra hönd. Þá segja fræðin að lyflækningar eigi vel við nautið.
Fræg naut: David Beckham, George Clooney og Megan Fox.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.