Nýverið opnaði sýningin Vara-litir í Hafnarborg, Hafnarfirði.
Sýningin er hlaðin litríkum málverkum eftir annars ólíka listamann sem eiga lítið sameiginlegt annað en það að kljást við málverkið. Þetta er sýning sem allir ættu að geta notið og fundið eitthvað við sitt hæfi.
Það eru þau Gabríela Friðriksdóttir, Guðmundur Thoroddsen, Helgi Þórsson, Hulda Vilhjálmsdóttir, Ragnar Þórisson, Þorvaldur Jónsson og Þórdís Aðalsteinsdóttir sem eiga verk á sýningunni en sýningarstjóri er hún Birta Fróðadóttir.
Um sýninguna segir Birta meðal annars:”Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik. Sýningin streymir um rýmið og verk ólíkra listamanna standa saman þannig að einstaklingur og hópur verða eitt.
Persónuleg sköpun rennur saman við heildarflæði sýningarinnar og undirstrikar tjáningarfrelsi og stjórnlaust upplýsingaflæði samtímans.
Áhorfandanum er jafnframt gefið algert frelsi, hann sér með eigin augum og túlkar með sínu hjarta. Taumlaus tjáning og litagleði Vara-lita er kærkomin hressing í rökkvuðu skammdeginu – og aðdráttarafl verkanna í heild óhjákvæmilegt.”
Óhætt er að mæla með ferð í fjörðinn og innliti á þessa sýningu en hún stendur til 4. janúar.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.