Í kjallaranum á Hrím, hönnunarhúsi á Laugarveginu er gallerí ÞOKA og þar stendur nú yfir sýning á verkum Ragnars Jónassonar en, það fer hver að verða síðastur að sjá sýninguna því henni lýkur nú um helgina.
Verkin eru í eðli sínu málverk en þó án hins hefðbundna undirlags og aðferðar. Það er miðillinn sjálfur, málningin, sem er í forgrunni en hún stendur ein og sér í stað þess að vera borin á flöt.
Í sumum verkanna hefur málningunni verið ofið um þunnan vír og sjálfa sig en í öðrum hefur hún verið mótuð svo hún minnir helst á fljótandi skúlptúr.
Ákveðin óvissa fólst í gerð verkanna þar sem þau voru unnin aftanfrá; fremsta lagið kom fyrst og aftari grunnlögin síðast. Málningin fékk því nokkuð frelsi þó strokunum, formunum og henni sjálfri hafi verið stjórnað af listamanninum. Fullkomið vald yfir útkomunni féll þó úr höndum Ragnars þar sem beitt var öfugri aðferð við gerð verkanna.
Og talandi um málverk, ég mæli eindregið með bókinni “Málverkið sem slapp út úr rammanum” eftir Jón B.K. Ransu fyrir þau sem vilja fræðast meira.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.