Það er nóg um að vera í myndlistinni þessa komandi helgi eins og alltaf. Fjöldi áhugaverðra sýninga opna víðsvegar um borgina og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Föstudagur
Föstudaginn 19. september kl. 17 opnar J.B.K Ransu málverka sýningu í sýningarrými Listamanna, skúlagötu 32. Ef þú hefur áhuga á málverkinu þá er þetta svo sannarlega sýning fyrir þig.
Laugardagur
Á laugardaginn, þann 20.september verður afhjúpað nýtt vegg verk í Breiðholtinu eftir Ragnar Kjartansson og vegglistahóp Miðbergs. Vígslan er kl 14 við Krummahóla 2. Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson vígir verkið og verður boðið upp á léttar veitingar og tónlustaratriði við vígsluna.
Í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi kl 16. opnar sýningin Myndun.
Sjö listamenn eiga verk á sýningunni Myndun: Tomas Saraceno frá Argentínu, Ernesto Neto frá Brasilíu,Ragna Róbertsdóttir, Mona Hatoum frá Líbanon, Monika Grzymala frá Póllandi, Ryuji Nakamura ogRintaro Hara frá Japan.
Rætur þessara listamanna eru ólíkar en það sem sameinar þá er að verk þeirra eru þrívíðar innsetningar sem þeir vinna inn í rými. Verkin endurspegla ákveðna skynjun, hugsun og hrynjanda sem má túlka sem enduróm frá lífinu, frumkröftunum, uppbyggingu efnisheimsins og mótunar alheimsins. Annað sem tengir verkin saman er að þau hafa orðið til í ferli þar sem orka og tími virðast hafa hlaðið þau. Verkin höfða vitsmunalega, hugmyndafræðilega og á skynrænan hátt til áhorfandans. Þau koma á óvart með ferskleika sínum, fornri visku og sterkri nærveru. Ingibjörg Jónsdóttir er sýningarstjóri.
Á laugardag kl 16 opnar Curver Thoroddsen síðustu sýninguna í núverandi rými ÞOKU og er róf gráskalans meðal viðfangsefna.
Curver sýnir vídeógjörning sem hann vann sérstaklega fyrir þessa sýningu og tók upp í galleríinu. Á húmorískan, einfaldan og einlægan hátt leikur hann sér með gráskalann og andstæða póla hans, svartan og hvítan, nema að hann gerir það í lit.
Svo ef allir eru að kafna úr stuði eftir myndlist dagsins þá opnar áhugaverð samsýning síðar um kvöldið klukkan 20. að Aðalstræti 7, gula húsið við Ingólfstorg.
Það eru listamennirnir Ása Dýradóttir og Ásgeir Skúlason sem sýna.
Svo hvet ég alla til þess að fylgjast með þeim Steinunni Gunnlaugsdóttur og Snorra Páli Úlfhildarsyni en þau sýna verk út og suður frá 20. september til 3. október.
Nánar hér: www.sackofstones.com og www.wheelofwork.org
Góða skemmtun!
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.