Nú stendur yfir í Listasafni ASÍ sýning Hugsteypunnar, Regluverk. Sýningin er unnin út frá listrannsókn sem staðið hefur yfir í tæp tvö ár .
Markmið rannsóknarinnar var að kanna skynjun og skynúrvinnslu myndlistarmanna og hvort hún tengist á einhvern hátt notkun á reglum eða endurtekningum við sköpun myndlistarverka.
Meginþáttur rannsóknarinnar var úrvinnsla spurningalista sem sendur var á sextíu manna úrtak starfandi myndlistarmanna af báðum kynjum, á breiðu aldursbili.
Spurningalistinn innihélt spurningar er varða skynjun, verk og vinnubrögð í tengslum við myndlist.
Á sýningunni Regluverk gefur að líta verk sem eru unnin uppúr niðurstöðum rannsóknarinnar; málverk, innsetningar og textaverk.
Hugsteypan er samstarfsverkefni Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur (f. 1976) og Þórdísar Jóhannesdóttur (f. 1979). Þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Síðastliðin ár hafa Ingunn og Þórdís starfað jöfnum höndum saman undir merkjum Hugsteypunnar og í sitt hvoru lagi við eigin myndlistarverkefni.
Efnistök Hugsteypunnar hafa verið allt frá hugleiðingum um listasöguna og eðli myndlistar til notkunnar á viðurkenndum aðferðum rannsókna við gerð myndlistarverka.
Sérstök athygli er vakin á því að næstkomandi laugardag, 29. nóvember verða þær Ingunn Fjóla og Þórdís með listamannaspjall í ASÍ kl. 15
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.