Týs gallerí, er lítið gallerí á Týsgötu sem er öflugt sýningarrými í borginni og opna þar nýjar sýningar reglulega. Sýningarrýmið skiptist í tvo hluta. Annars vegar er það aðalrými gallerísins og svo það sem kallað er rennan.
Nú stendur yfir í aðalrými gallerísins sýning á verkum Karlottu Blöndal. Í sýningunni Mót / Print – af einum stað á annan, sýnir Karlotta verk sem unnin voru úti í náttúrunni fyrr á þessu ári á samsýningunni STAÐIR / PLACES í Tálknafirði á Vestfjörðum. Verkin hafa tekið á sig nýja mynd, gengið í gegnum umbreytingarferli og birtast í nýju samhengi á nýjum stað. Sýningin saman stendur af ljósmyndum og myndbandsverki sem og pappírs innsetningu.
Karlotta útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997. Hún var við framhaldsnám í Hollandi og Svíþjóð og lauk MFA-námi frá Listaháskólanum í Malmö árið 2002. Hún á að baki fjölmargar einka- og samsýningar hér heima og erlendis, m.a. í Tyrklandi, Kóreu og á Norðurlöndunum.
Sýningin stendur til 28. september og er galleríið opið frá 13 til 17 frá miðvikudegi til sunnudags.
_______________________________________
Í rennunni opnaði nýverið sýning á verkum David Subhi. Þetta er fyrsta sýning Davids á Íslandi en hann fluttist nýverið til landsins.
David Subhi, fæddur árið 1990 í Antananarivo Madagaskar og er málari og píanóleikari. Hann flutti með fjölskyldu sinni til Frakklands árið 1998.
David hóf myndlistarnám við Villa Arson listaskólann í Nice árið 2007 þar sem hann stundaði nám í myndlist, fagurfræði og listasögu. Hann útskrifaðist þaðan sex árum síðar. Um málverkið hefur David þetta að segja:
“Ég spyr, hvað nákvæmlega getur màlverkið sýnt? Hvað á að mála? Hvernig? Með eða á móti hverju? Hvað gerir gott málverk? Hvert verk er tilraun til að svara því. Að óttast ekki mótsögn, bilun eða bull. Hví mála ég? Vegna þess að það er athöfn fyllt með ástríðum þar sem möguleikinn er fyrir hendi að skapa og ná til fegurðarinnar.”
Smelltu í læk á Týs gallerí og fylgstu með með því að haka við Get Notifications!
Á sýningu Davids sjáum við þrykkt málverk, endurtekningu ofan í endurtekningu þar sem þau liggja í rennunni. Í loftinu hanga það sem við fyrstu sýn virðast vera pylsur.
Þetta eru þó engar venjulegar pylsur heldur eru þetta málverk sem innihalda ýmislegt svo sem gjaldeyri og dýrmæta steina.
__________________________________________________
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.