Hjalti Parelius er fæddur í Reykjavík árið 1979. Hann er grafískur hönnuður og ætlaði aldrei að verða listmálari en hlutirnir æxluðust nú einhvern veginn þannig.
Hvernig datt þér í hug að fara að mála?
„Ég missti vinnuna sem grafískur hönnuður þegar hrunið skall á. Ég var staðráðinn í að láta ekki atvinnuleysið buga mig á sál og líkama og ákvað virkja hugann og ímyndunaraflið og fara að mála aftur eftir nokkurra ára hlé. Markmiðið var að sýna afraksturinn á Ljósanótt 2009. Það tókst betur en mig hafði nokkru sinni dreymt um, af 15 verkum seldi ég 13. Á Menningarnótt 2010 var ég svo með einkasýningu í Gallery Fold með um 20 myndum. Komu um 5000 manns á sýninguna enda vinsæll staður á menningarnótt.“
Hverjir kaupa verkin þín og af hverju?
„Það er allur gangur á því. Virðist ekki vera neinn stigs munur þar á. Það er helst fólk sem lítur á myndlist sem fjárfestingu og er frekar tilbúið að setja pening í það frekar en í einhverja sjóði sem það kannski þekkir ekki til. Málverksins geturðu notið heima hjá þér og jafnvel skipt út seinna. Það gerir maður ekki með peninga í fjárfestingasjóði. Það hefur líka sýnt sig í gegnum tíðina að fallegt málverk selst oftar en ekki dýrara nokkrum árum seinna en þegar það var keypt. Hver væri ekki til í að hafa keypt myndir af Erró í kringum 1980?“.
Hvaða sögur ertu að segja í myndunum þínum?
„Það er misjafnt. Sumar eru há pólitískar og einskonar útrás fyrir gremju, sbr Monkey Business og Ísland í Dag. En annars finnst mér skemmtilegt að fjalla um hversdagsleikan. Færa hann á annað plan eða taka hann úr samhengi og tengja yfir í annað. Sumt mála ég af því að mér finnst það fallegt. Oftast fær áhorfandinn rými til að túlka frásögnina sjálfur. List er ekki hvað ég sé. List er það sem ég fæ þig til að sjá.“
Hvernig vinnurðu myndirnar?
„Ég teikna bæði mitt eigið efni, vinn út frá ljósmyndum eða klippi inn teiknimyndafígúrur, allt eftir því hvaða skilaboðum ég vil koma áleiðis. Ég byrja næstum alltaf stafrænt í tölvunni. Sumar geta tekið gríðarlega langan tíma að vinna á striganum og er ég oftast með margar í gangi í einu.“
Stíllinn þinn er líkur Erró, er hann fyrirmynd þín?
„Ég fæ innblástur frá mörgum en eins og sést er Erró þar efstur á lista, ásamt Roy Lichtenstein, Andy Warhole, Öyvind Fahlström og fleiri popplistamönnum. Einnig fæ ég innblástur frá samfélaginu. Það sem heillaði mig við stíl Errós eru litirnir og notkun hans á gömlu efni, færa það yfir í nýtt samhengi og í raun og veru bjarga því fá því að verða skúffumatur. Það eru ekki margir klippimyndalistamenn á íslandi. Erró virðist hafa átt klippimyndasviðið og það eru ekki margir sem hafa hætt sér út á það af hættu við að vera merktir sem hermikrákur.“
Kíktu á heimasíðuna hjá Parelius til að sjá fleiri flottar myndir: www.parelius.is
Smelltu svo hér fyrir smá sýnishorn:
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.