Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir opnar einkasýningu í Týsgallerí í dag, fimmtudaginn 10. júlí og nefnist sýningin (Ó)stöðugir hlutir / (Un)steady Objects.
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir útskrifaðist með B.A. próf í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2007, en hefur einnig lokið B.A. prófi í listasögu frá háskólanum í Árósum.
Undanfarin ár hefur Ingunn Fjóla unnið markvisst að myndlist og tekið þátt í fjölmörgum sýningum. Þar ber helst að nefna einkasýningar í Cuxhavener Kunstverein, Hafnarborg og Gallerí Ágúst, þátttöku í alþjóðlega tvíæringnum Prague Biennale, samsýningunum Ég hef aldrei séð fígúratíft rafmagn í Ásmundarsafni og Píanó í Listasafni Íslands sem var hluti af Listahátíð auk fjölda samsýninga hérlendis sem erlendis.
Í verkum sínum hefur Ingunn aðallega fengist við málverk og innsetningar. Verkin eru oftast bundin ákveðnu rými þar sem samspil listaverksins við rýmið og rýmisskynjun áhorfandans eru jafnan í forgrunni. Tilraunir hennar með form, lit og línu leika lykilhlutverk og lokka áhorfandann til hreyfingar og þar með margbreytilegrar skynjunar verkanna.
Á sýningunni (Ó)stöðugir hlutir/ (Un)steady objects sýnir Ingunn sex ný málverk á minni skala en oft áður, þau standa sem sjálfstæð verk en taka jafnframt mið af rými gallerísins og eiga í samtali við það.
Sýningin stendur til 3. ágúst.
Týsgallerí er staðsett á Týsgötu 3 og er opið frá miðvikudegi til sunnudags frá klukkan 13-17.