Í Listasafni Así stendur nú yfir sýningin Ladies, beautiful ladies og það er listamaðurinn Birgir Snæbjörn Birgisson sem sýnir.
Sýningin er framhald rannsókna Birgis á spurningum um samfélagslegt og pólítiskt samhengi táknmynda sem hann spyr með því að skoða ímynd ljóskunnar í menningarheimi okkar.
Á sýningunum fjallar hann um það hvernig ímyndir eru gerðar og mótaðar, dreifðar og endursagðar með því að nota málverk á striga, innsetningar og verk á pappír.
Á sýningunni má sjá málverk og vatnslitamyndir eða texta.
Í gryfjunni svokallaðri finnum við innsetningu þar sem sjá má skrásetningu Birgis á rannsókn sinni í Parísarborg.
Birgir hefur unnið með gamla bók sem inniheldur mannlýsingar á gleðikonum borgarinnar á síðustu öld.
Hann fór til Parísar og leitaði uppi vistaverur þeirra og skrásetti. Einnig hefur hann vatnslitað valina texta sem hanga á veggjunum í römmum.
Þessar lýsingar á konunum eru hreint út sagt magnaðar og það er ótrúlegt að lesa þær.
Ég mæli algjörlega með inniliti á þessa sýningu.
Hún er í senn falleg og fróðleg og ég bendi líka sérstaklega á að bókaforlagið Crymogea gefur út bók með verkum Birgis.
Í henni eru 299 málverk, máluð á umslög vínilplatna þar sem ljóshærðar, fallegar konur frá sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum sitja fyrir.
Sýningarstjóri Ladies, Beautiful Ladies er Mika Hannula en sýningin mun einnig vera sett upp í Helsinki í lok árs.
Sýningin stendur til 5.október og er opið alla daga nema mánudaga frá 13-17.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.