Margrét Bjarnadóttir er þekktari hér á landi á sviði danslistarinnar en hún hefur nú sett upp myndlistarsýningu í Kling & Bang gallery, Hverfisgötu 42.
Á sýningunni má sjá myndbandsinnsetningar, teikningar og ljósmyndir sem varpa ljósi á stöðugar vangaveltur Margrétar um tvöfallt eðli raunveruleikans og möguleikanna sem búa í efanum.
Margrét hefur verið að kanna það sem finna má innan í, á bak við og handan þess sem er.
Í teikningum hennar má sjá hvernig hún brýtur upp nöfn þjóðþekktra Íslendinga og breytir þeim yfir í eigin túlkun sem stundum tengist einstaklingunum á einhvern hátt.
Í ljósmyndum hennar getum við séð landslagið í landslaginu og hreyfingarnar handan hreyfinganna. Þar stillir hún mannslíkamanum upp inni í landslaginu og gerir hann að hluta þess með því að spegla hann inn í það þannig að hann verður sem hluti af því.
Margrét hefur áhuga á sannleikanum í fleirtölu og veruleikanum í fleirtölu og bera verkin á sýningunni LIFE – EFI þess merki. Falleg og skemmtileg sýning sem stendur til 28. september.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.