Á dögunum opnaði sýningin Heimasæta / Sweet Life í gallerí Harbinger á Freyjugötu en það er einkasýning myndlistarmannsins Örnu Óttarsdóttur.
Á sýningunni Heimasæta/Sweet Life vinnur Arna með togstreituna milli þess dýrmæta og hins ómerkilega.
Handofið klæði úr bómull tekur á sig mynd venjulegs stuttermabols og mylsna af eldhúsbekknum umbreytist í skúlptúr.
Þannig er gildismatinu snúið og ný merking verður til.
Saman skapa verkin einhvers konar upphafna stemningu úr hversdagsleikanum.
Merking þeirra er ekki alltaf skýr en verður frekar til á milli verka og í sambandi þeirra við hvort annað.
Stundum er betra að fara í kringum hlutina í stað þess að tækla þá beint.
Sumt er einfaldlega ekki hægt að setja í orð og verða þær hugmyndir að finna sér farveg í öðru formi.
Sýningin verður opin fim 14-18, lau 14-17, sun 14-17 og þá verður Arna á staðnum og svo þri 14-18 en þá er jafnframt síðasti sýningardagur.
____________________________________________________________
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.