Í litlu galleríi á Freyjugötunni sem áður hýsti Fiskbúð er nú að finna undurfagra sýningu eftir listamanninn Önnu Líndal sem ber heitið Samhengissafnið/línur.
Galleríið heitir Harbinger og opnaði með sína fyrstu sýningu í sumarlok.
Úr texta sem fylgir sýningunni segir:
Á sýningunni sýnir Anna valda hluti úr Samhengissafninu, safni sem er eins og „amaba” eða teygjudýr sem vex í allar áttir og á sér óljósan upphafspunkt.
Meðal annars verður til sýnis næstum 40 ára gamll afleggjari, KZ-3 epli sem Korbinian Aigner (eplapresturinn) í útrýmingabúðum nasista í Dachau ræktaði upprunalega, sjórekið plast úr Surtsey, vatn úr gígnum sem myndaðist í Grímsvatnagosinu 2011, dagbækur og spreyjaðar línur á mosa.
Þessir hlutir hafa allir tilfinningalegan snertipunkt, sem myndast við margþætta skoðun þar sem skoðandinn notar sjálfan sig á svipaðan hátt og landmælingamenn nota sín tæki, að safna gögnum frá mismunandi stöðum sem síðan safnast saman í hugskoti okkar og búa til heildræna túlkun, svokallað þekkingarkort.
Þetta er sýning sem vert er að sjá. Hún lumar á endalaust fallegum hlutum sem maður rekst á hvern á fætur öðrum með því að rýna í verkið og þegar að maður heldur að maður sé búin/nn að skoða þá rekur maður augun í eitthvað nýtt.
Þess má geta að Anna hefur gefið út bókverk samhliða sýningunni og er það fáanlegt í galleríinu sem er opið þriðjudaga og fimmtudaga frá 14-18 og laugardaga frá 14-17.
Sýningin stendur til 28. september og bendi ég sérstaklega á að þann 28. kl 16 verður Anna með listamannaspjall.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.