Rétt fyrir menningarnótt fór ég á frekar góða sýningu í afar óhefðbundu sýningarrými. Sýningin hét Skarkali og var samsýning nokkura ungra myndlistarmanna.
Ég rölti um Bergstaðarstrætið til að finna réttann stað og hann fann ég, ofan í kjallara á íbúðarhúsi. Sýninguna getið þið skoðað á meðfylgjandi myndum en ég hreinlega varð að pikka í hana Freyju Eilíf Logadóttur, galleríistuna og spyrja hana aðeins út í þetta nýja rými.
Ekkisens er staðsett í gömlu kjallarahúsnæði á Bergstaðastræti 25B. Hvaða rými er þetta eiginlega?
Undir það síðasta var þetta vinnustofa afa míns en hann lést fyrir tveimur árum. Það er ekki mikið um laus rými í miðbæ Reykjavíkur svo þetta var kjörið rými til að halda fyrstu sýningu eftir útskrift en það gerðum við saman 4 bekkjarsystur ásamt tveimur öðrum þann 22.-23. Ágúst og sú sýning hét SKARKALI.
Sýningin var mér svo góð hvatning til að rýma húsnæðið í einum grænum, þrífa, mála og byrja að laga ýmislegt og í krafti sköpunargáfunnar mun sú vinna halda áfram. Og í millitíðinni hefur rýmið fengið nafn: Ekkisens – en það er gammeldags blótsyrði sem tengist húsinu á sinn hátt, því langamma mín, sem keypti það árið 1960, brúkaði það óspart í sinni tíð.
Hvernig verður sýningum háttað? Þann 4. október mun sýningarrýmið Ekkisens formlega opna með samsýningu 20 nýútskrifaðra listamanna. Sýningin opnar kl. 17 og vænar veitingar verða í boði. Framundan eru svo listasýningar og annars konar viðburðir. Sýningarnar munu frekar verða stuttar og margar, öfugt við stóru listasöfnin sem setja bara fáeinar sýningar upp á ári. En þær verða ekki með neinum reglubundnum hætti heldur alfarið á valdi kaótíkur eins og sköpunargáfunni best sæmir. Bara þegar húsinu og mér ásamt aðstandenum næstu sýningar hentar.
Hver ert þú, konan á bak við galleríið? Og afhverju að ráðast í gallerírekstur í svona óhefðbundnu rými?
Ég heiti Freyja Eilíf Logadóttir og ég er nýútskrifuð úr Listaháskólanum. Ég hef þetta rými til afnota sem sýningarrými gegn því að vinna í húsinu og gera það upp. Amma mín býr á efri hæðinni.
Rýmið er sérstakt fyrir þær sakir að eiga lítið sameiginlegt með þeim hvítu og tæru rýmum sem venjulega hýsa listasýningar. Íbúðin þarfnast viðhalds svo að rýmið er bæði hrátt og hlýlegt í senn. Þetta er að mínu mati afskaplega spennandi umhverfi til að vinna myndlist og setja upp sýningar í. Hressandi og algerlega þörf tilbreyting frá hvítu stílíseruðu rýmunum sem eru orðinn algjör standard.
Svo er líka annað. Þó svo að mikillar grósku gæti í myndlistarsenu Reykjavíkur og borgin státi af mörgum galleríum og sýningarrýmum þá er ekkert af þessu vettvangur fyrir nýútskrifaða listamenn. Maður getur prísað sig sælan að vera með verk á jólabasarnum í Kunstschlager. Þetta þykir mér sorglegt og mjög ábótavant vegna þess að þetta er sá hópur fólks sem er alveg iðandi í skinninu fyrir því að fá útrás fyrir sköpunarkrafti sínum og hefur mikið fram að bjóða. Ekkisens er t.d. bót á þessu vandamáli.
Fylgist spennt með Ekkisens á facebook og kíkjið við á opnun nýrrar sýningar næsta laugardag.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.