Í ÞOKA, sem sem stendur er staðsett í kjallara Hrím hönnunarhúsi á laugaveginum má finna sýningu á videoverki eftir Curver.
Þetta er síðasta sýningarhelgi sem nú er framundan og jafnframt er þetta síðasta sýningin í þessum húsakynnum ÞOKU. Við fylgjumst með Curver klæða sig í og út fatnaði sem er mismuunandi á grátónasviðinu enda heitir verkið Gráskali.
Ókei Curver, segðu okkur nú hvernig þér datt þetta eiginlega í hug?
Þetta er svona um fjögurra ára gömul hugmynd að verki. Upprunalega átti þessi einfaldi gjörningur að vera tekinn upp á svart/hvíta 16mm filmu og þá átti tímalengd filmunnar að spila meira hlutverk í verkinu.
En á þessum árum hefur hugmyndin þróast hægt og rólega í þetta form sem verkið er í dag. Sem mér finnst mun betra og víðtækara verk en upprunalega hugmyndin gat gefið af sér.
Í verkinu klæðist ég fimm settum af fötum sem spanna allt rófið frá svörtum til hvíts með ljósgráum, milligráum og dökkgráum á milli. Verkið er núna tekið upp á háskerpu vídeó og er í lit þó svo að í rauninni sé eiginlega enginn litur í því, fyrir utan húðlitinn.
Vídeóið er í raun endalaus lúpa og ég fer grátónaskalann fram og til baka. Í rauninni er ég bara að leika mér að grátónaskalanum sem er auðvitað mikill grunnur að allskyns myndsköpun. Þó þetta sé svokallaður vídeógjörningur er þetta eitt mesta “malerí” verk sem ég hef í seinni tíð.
Fannst þú sjálfur fyrir jákvæðri eða neikvæðri tilfinningu eftir litrófinu?
Í rauninni ekki meðan ég var að gera verkið. Eða öllu heldur að ég kannski tók ekki eftir breytingunni þar sem ég var svo upptekinn við gerð verksins og breytingin gerðist hægt, flík fyrir flík.
Þegar ég horfi núna á verkið sé ég mjög mismunandi karaktereinkenni í mér styrkjast og veikjast eftir því hvaða fötum ég er í. Kannski á máltækið “fötin skapa manninn” vel við í þessu samhengi.
Tengingarnar verða öðruvísi við að sjá mig til dæmis í dökkgráum fötum eða skjannahvítum. En ekki endilega neikvætt eða jákvætt. En mér finnst dálítið fyndið að í heildina finnst mér þetta frekar döll og grámyglulegt verk. Allavegana miðað fyrri verk mín sem venjulega eru mjög fjörmikil og litrík. Það er allavegana ekki sami léttleikinn í þessu verki finnst mér en það er nú samt alveg húmor í því.
Trúðurinn er alltaf grátbroslegur, er það ekki? Mér fannst allavega alveg vert að kanna þennan gráleita tón sem flestir tengja við eitthvað leiðinlegt og döll. Gráskalinn er skemmtilega leiðinlegur ef svo má segja. Mig minnir að Birgir Andrésson heitin hafi einmitt sagt “Lífið er ekki svart og hvítt, lífið er í gráskala”.
Þar sem verkinu verða gerð afar takmörkuð skil í ljósmyndaformi hvet ég lesendur að sjálfsögðu til þess að drífa sig í galleríið og sjá þar verkið.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.